Innlent

Um fimmtán manns vísað frá Gistiskýlinu: „Líta á þetta sem heimili en þetta er neyðargistiskýli“

Birgir Olgeirsson skrifar
Sveinn Allan Morthens, forstöðumaður Gistiskýlisins.
Sveinn Allan Morthens, forstöðumaður Gistiskýlisins. Vísir/Anton Brink
„Það er yfirfullt og þá verðum við að sortera dálítið inn og þá sorterum við þá sem eru í mestu þörfinni,“ segir Sveinn Allan Morthens, forstöðumaður Gistiskýlisins fyrir utangarðsmenn við Lindargötu, en um fimmtán manns hefur verið vísað frá gistiskýlinu síðastliðinn sólarhring. 

Sveinn segir Gistiskýlið gert fyrir 25 manns í gistingu en í nótt gistu þar þrjátíu. 

„Eins og þetta hefur verið að undanförnum höfum við þurft að vísa frá allt upp í 7-8 manns á hverju kvöldi og húsið orðið fullt klukkan fjögur á daginn, þá erum menn búnir að skrá sig inn,“ segir Sveinn Allan sem segir að greina megi aukningu í ásókn í gistiskýlið síðastliðið ár.

„Auðvitað eru menn spældir“

Verið sé að reyna að finna úrræði fyrir þennan hóp og mæta aukningunni og segir hann eina af leiðunum að sortera þá sem leita þangað eftir neyð. „Það er ekki um annað að ræða. Og auðvitað verða menn spældir og finnst þetta ósanngjarnt, af hverju ég en ekki hinir. Þetta er ekki óskastaða að vísa fólki frá en við verðum að mæta hlutunum. Sumir eru búnir að vera þarna svo árum og áratugum skiptir og líta á þetta sem heimili en þetta er neyðargistiskýli,“ segir Sveinn.

Spurður hvort þeim sem var vísað frá eigi möguleika á einhverju öðru úrræði segir hann svo vera um flesta. „Flestir hafa einhverja möguleika, ekki fleiri neyðarskýli en þetta eru einstaklingar sem hafa einhver tengsl og eru oft tengdir en finna að þessu og finnst þetta ósanngjarnt og allt ómögulegt.“

Gistiskýlið við Lindargötu.Vísir
Segir marga neita að fara í félagslegar íbúðir

Hann segir erfitt að svara því á einhvern einfaldan hátt hvað valdi þessari aukningu. „Það er ekki mjög mikið framboð af íbúðum og sumir þessara einstaklinga vilja ekki fara í félagslegar íbúðir því þeir neita að borga og telja að þeir eigi að fá svona íbúðir þeim að kostnaðarlausu. Þetta hefur skapað auðvitað heilmikinn vanda og þetta er hluti af vandanum. Svo hefur fjölgað í þessum hópi sem leitar í gistiskýlið. Það er kannski ekki það sama og það sé mikil aukning. Þarna fá menn ókeypis mat og ókeypis gistingu og kannski eðlilegt að þeir sem eru í neyslu leiti þangað  og líka kannski eðlilegt að aðrir sem eru ekki í  mikilli neyslu en horfa á sig í einhverri þörf, og eru það eflaust, leiti líka en við verðum bara að sortera þetta.“

„Festast í þessari stöðu“

Aðspurður svarar hann því játandi að þetta sé ekki óska staða hjá mönnum að leita í Gistiskýlið. 

„En samt eru einhverjir sem festast í þessari stöðu og þiggja ekki önnur úrræði. Við höfum verið að bjóða önnur úrræði þar sem menn þurfa að borga smá leigu en því hafna menn. Þetta er blanda af mönnum í erfiðleikum en þetta er líka spurning um það hvort þeir hafi vilja til að breyta einhverju.“

„Gistiskýlið er ekki hjúkrunarheimili“

Af þeim sem var vísað frá eru einhverjir sem eiga við veikindi að stríða og óvinnufærir en Sveinn segir Gistiskýlið í mörgum tilfellum taka á móti fólki sem eigi alls ekki heima þar.

„Gistiskýlið er ekki hjúkrunarheimili og við erum með fólk á aldrinum frá tvítugu og upp í hálf áttrætt og margir að glíma við bæði líkamleg og andleg veikindi sem Gistiskýlið er ekki sérhæft í að vinna með.“


Tengdar fréttir

Auðvelt að daga uppi í gistiskýlinu

Sveinn Allan Morthens, forstöðumaður gistiskýlisins, segir engan utangarðsmann í borginni svelta. Þjónustan sé góð. Hins vegar þurfi að valdefla fólk, hvetja það til að taka ábyrgð á sér sjálft. Það gangi ekki að aðrir taki alla




Fleiri fréttir

Sjá meira


×