Innlent

Reykjavíkurborg mótar reglurnar um túlkaþjónustuna

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
„Eflaust hefðum við getað gert betur og við munum skoða það. Að þessar upplýsingar hafi borist til viðkomandi túlks er ekki heppilegt en við verðum að bregðast við ábendingum sem okkur berast,“ segir Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar, um það að starfsmaður borgarinnar hafi greint Alþjóðasetri frá ásökunum á hendur túlknum Ómari Samir.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Ómar hefði verið sakaður um alvarlega glæpi í starfi sínu sem túlkur en hann hefur starfað fyrir Reykjavíkurborg sem kennari í tugi ára og sinnt túlkaþjónustu fyrir ýmsa aðila hér á landi í 27 ár.

Anna Kristinsdóttir
Í lok mars síðastliðins var Ómar boðaður á fund hjá Alþjóðasetri. Þar var honum sagt frá því að borgin hefði sett sig í samband við Alþjóðasetur með alvarlegar ásakanir á hendur honum. 

Ásakanirnar voru meðal annars þær að hann hefði ekki túlkað rétt, hótað skjólstæðingum og þegið peninga beint frá þeim fyrir túlkaþjónustu sína. 

Ómar segir ásakanirnar rangar og að þetta hafi haft mikil áhrif á sig andlega og efnahagslega. Borgin hafi ekki lagt fram neinar sannanir né útskýringar á málinu, hvorki til Alþjóðaseturs né til hans sjálfs, þrátt fyrir ítrekaðar beðnir.

Anna segir að ekki séu til verklagsreglur í málum sem snerta túlkaþjónustu og að nú sé unnið að því að móta þær. 

„Þessi þjónusta hefur hingað til ekki verið mjög fastmótuð en nú er aukin þörf fyrir notkun túlka og viljum við gera þetta vel og faglega. Það er auðvitað mjög mikilvægt að það sé trúnaður.“

Hún segir að borgin sé ekki í stöðu til að meta það hvort ásakanir sem þessar eigi við rök að styðjast. Þá sé borgin heldur hvorki í stöðu til að gefa Alþjóðasetri né Ómari upplýsingar um það hver það er sem ásakar hann. 

„Kannski hefði verið réttast að segja að við vildum ekki að hann túlkaði fyrir okkur og ekkert meira,“ segir Anna og bætir við að Alþjóðasetur hefði þó líklegast beðið um skýringar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×