Innlent

Fyrsta banaslysið í Hvalfjarðargöngum

Ingvar Haraldsson skrifar
Slysið í Hvalfjarðargöngum.
Slysið í Hvalfjarðargöngum. Vísir/Eyþór
Banaslys varð í Hvalfjarðargöngunum skömmu fyrir klukkan tvö í gær. Jeppi, á leið til suðurs, hafnaði á öfugum vegarhelmingi í göngunum, tæpum kílómetra frá suðurenda þeirra, og lenti framan á fólksbíl.

Hin látna, kona á sjötugsaldri, var farþegi í framsæti fólksbílsins. Hún var úrskurðuð látin á vettvangi samkvæmt lögreglu. Slysið er fyrsta banaslysið í Hvalfjarðargöngunum frá opnun þeirra árið 1998.

Fjórir voru fluttir slasaðir á Landspítalann, þar af einn með þyrlu Landhelgisgæslunnar en tveir voru í öðrum bílnum og þrír í hinum. Þrír voru á gjörgæsludeild og einn var í rannsóknum í gærkvöldi samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum.

Göngin voru lokuð í um þrjár klukkustundir í kjölfar slyssins.

Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar sem rekur Hvalfjarðargöngin, segir umferð hafa aukist mikið í göngunum í ár og því fari að verða brýnt að taka ákvörðun um hvort tvöfalda eigi göngin.

Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar
„Þá náttúrulega verða svona slys ekki, langhættulegustu slysin eru framanáakstur,“ segir Gylfi. Erfitt sé að gera frekari öryggisráðstafanir í göngunum en þær sem þegar hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir slys sem þessi.

Útlit sé fyrir að allt tuttugu prósent aukningu í ár þannig að meðal­fjöldi bíla á dag verði milli 6.600 og 6.700.

„Hættan á þessu eykst, bæði utan ganganna og innan, þegar umferð eykst svona rosalega eins og gerst hefur í ár alls staðar. Þetta eru allt saman 1+1 vegir, nánast, þar sem þessi mikla traffík er,“ segir Gylfi.

Aukist umferð jafn mikið það sem af er þessu ári út árið og á því næsta má búast við að umferðin í Hvalfjarðargöngunum verði komin upp í hámark leyfilegrar umferðar samkvæmt Evróputilskipunum á næsta ári. Það eru 8.000 bílar að meðaltali á dag yfir allt árið. Því kallar Gylfi eftir umræðu um hvort tvöfalda eigi göngin. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. júní


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×