Innlent

Fébótakröfu fyrrverandi trymbils Sólstafa vísað frá dómi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sólstafir á meðan Guðmundur Óli var enn meðlimur.
Sólstafir á meðan Guðmundur Óli var enn meðlimur. mynd/stebba ósk
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag lögbannskröfu og 20 milljón króna skaðabótakröfu Svalbard Music Group, fyrirtækis sem stofnað var um rekstur hljómsveitarinnar Sólstafa, á hendur Aðalbirni Tryggvasyni, söngvara og gítarleikara sveitarinnar, frá dómi.

Hljómsveitin Sólstafir var stofnuð árið 1995 og hefur notið nokkurra vinsælda víða um heim. Áðurnefndur Aðalbjörn Tryggvason er einn stofnmeðlima sveitarinnar en sömu sögu er að segja af Guðmundi Óla Pálmasyni, trommara, en honum var vikið úr hljómsveitinni í upphafi árs 2015.

Guðmundur greindi frá sinni hlið í tengslum við brottreksturinn í yfirlýsingu sem birt var síðasta sumar. Eftirstandandi meðlimir sveitarinnar báðu um tilfinningalegt svigrúm vegna málsins. Það var síðan mánuði síðar sem Guðmundur Óli tilkynnti að hann hyggðist höfða dómsmál vegna fjármuna sem hann telur sig hafa orðið af. Hægt er að lesa umfjallanir Vísis um efnið með að smella á tenglana hér á undan.

Taldi sig hafa orðið af tuttugu milljónum

Svalbard Music Group var stofnað í ársbyrjun 2011 var í eigu Guðmundar og Aðalbjörns til helminga. Þeir hafi setið tveir í stjórn þess og Guðmundur verið stjórnarformaður, og haft oddaatkvæði í sínum höndum, en Aðalbjörn var meðstjórnandi og framkvæmdastjóri með prókúru.

Í málflutningi Guðmundar fyrir dómi kom fram að árangur Sólstafa á erlendri grundu hafi ekki síst verið honum að þakka. Auk framlags hans til tónlistarsköpunar hafi hann séð um samfélagsmiðla og hannað, ýmist einn eða í samstarfi við aðra, mest allan varning og kynningarefni sveitarinnar.

Taldi trommarinn að með því að halda áfram sölu á varningi Sólstafa bryti hans gamli vinur, Aðalbjörn, á rétti sínum. Fór hann því fram á að Aðalbjörn myndi láta af því auk þess að hann krafðist tuttugu milljóna vegna þess tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir.

Ólögmætur stjórnarfundur

Líkt og áður segir var kröfu félagsins vísað frá dómi. Svalbard Music Group hélt stjórnarfund 11. desember síðastliðinn sem Guðmundur Óli mætti einn á þrátt fyrir að boðað hafi verið til hans með löglegum hætti. Á fundinum var sú ákvörðun tekin, með oddaatkvæðinu einu, að slíta ráðningu Aðalbjörns sem framkvæmdastjóra og afturkalla prókúrumboð hans. Á hluthafafundi síðar í mánuðinum, sem aðeins lögmaður Guðmundar Óla sótti, var síðan tekin ákvörðun um að hafa uppi fébótakröfu á hendur Aðalbirni.

Í niðurstöðu héraðsdómara segir að samkvæmt lögum um einkahlutafélög þurfu meirihluti stjórnarmanna að sækja stjórnarfundi til að þeir séu lögmætir. Að auki var fundið að því hvernig staðið var að boðun hluthafafundarins. Það var niðurstaða dómara að Guðmundur Óli gæti ekki farið með fyrirsvar fyrir félagið þar sem ekki fundirnir voru eigi lögmætir.

Úrskurðinn í heild sinni má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×