Innlent

Dæmdur í sex ára fangelsi fyrir ítrekuð ofbeldisbrot gegn barnsmóður sinni

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Maðurinn veittist meðal annars að barnsmóður sinni á sjúkrahúsi skömmu eftir barnsfæðingu.
Maðurinn veittist meðal annars að barnsmóður sinni á sjúkrahúsi skömmu eftir barnsfæðingu. Myndvinnsla/Garðar
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær karlmann til sex ára fangelsisvistar fyrir ítrekuð ofbeldis- og kynferðisbrot gegn fyrrverandi eiginkonu og barnsmóður sinni. Ákæran á hendur manninum var í tíu liðum og áttu brotin sér stað á árunum 2013-2015.

Var maðurinn meðal annars fundinn sekur fyrir nauðgun og brot gegn blygðunarsemi, með því að hafa [...] 2013 að [...] í Reykjavík, með ofbeldi og ólögmætri nauðung þvingað B til að hafa við sig munnmök en ákærði tók í hár hennar og ýtti henni að getnaðarlim sínum auk þess sem ákærði tók atvikið upp á myndband með farsíma sínum,“ segir í dómnum.

Þá var hann einnig fundinn sekur fyrir aðra nauðgun gegn konunni sama ár. „Með því að hafa [...] 2013 í íbúð að [...] í Reykjavík, haft önnur kynferðismök við B með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung en ákærði tók tvisvar til þrisvar um háls B í stutta stund og kleip fast í nef hennar, klæddi hana svo úr öllu nema nærfötum og batt hendur hennar með reipi og hengdi hana upp í krók í loftinu þannig að hún hékk með hendur fyrir ofan höfuð og fætur rétt snertu rúm. Ákærði ógnaði B því næst með logandi sígarettu sem hann þóttist ætla að brenna hana með. Ákærði slökkti svo ljósið og þóttist yfirgefa herbergið en losaði B eftir nokkurn tíma og þvingaði hana endaþarmsmaka og lét hana hafa við sig munnmök beint í kjölfarið.“

Ítrekaðar líkamsárásir og hótanir

Þá var hann einnig fundinn sekur fyrir blygðunarsemisbrot með því að hafa sent systur konunnar mynd af henni þar sem hún var að hafa munnmök við ákærða, í gegnum Facebook. 

Þrír ákæruliðanna sneru að líkamsárásum. Tvisvar sló hann konuna í andlitið með þeim afleiðingum að hún hlaut blóðnasir eða glóðarauga. Þá hótaði hann einnig að brjóta í henni tennurnar og í eitt skiptið reif hann í hár hennar, togaði hana niður að gólfi og sló hana með flötum lófa í andlitið.

„Eftir að hún hafði lagt börnin frá sér togaði ákærði hana niður í gólf á hárinu og sló hana í andlit. Af þessu hlaut B eymsli í hársverði, bólgu og mar yfir vinstra kinnbeini, um það bil 10x8 cm mar á hægri upphandlegg og 5x6 cm mar á vinstri upphandlegg.“

Þá braut hann einnig á nálgunarbanni með því að hafa ítrekað sett sig í samband við konuna í gegnum Facebook og með tölvupóstsendingum, eftir að honum var bannað að setja sig í samband við hana samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. 

Veittist að barnsmóður eftir barnsfæðingu

Maðurinn á baki sakaferil og síðast hlaut hann tólf mánaða fangelsisdóm árið 2012 fyrir ýmis brot. 

Samkvæmt læknisvottorði geðlæknis mannsins hefur hann frá unga aldri glímt við ýmsar geðraskanir. Við ákvörðun refsingar var litið til játningar ákærða fyrir dómi. Hluta brotanna játaði hann strax á rannsóknarstigi. Í dómnum segir að ekki sé algengt að þeir sem ákærðir eru fyrir svo alvarleg brot gangist við þeim.

„Við ákvörðun refsingar er jafnframt litið til ásetningsstigs brotanna en um einbeittan ásetning var að ræða í öllum tilvikum. Veigraði ákærði sér til að mynda ekki við að veitast að brotaþola á sjúkrahúsi skömmu eftir barnsfæðingu. Gilti þar einu þó að nýfædd börn hans væru í sama herbergi. Þá er hluti brotanna til að mynda framinn eftir að ákærði var laus úr gæsluvarðhaldi sem hann sætti vegna málsins.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×