Innlent

Fá óháðan aðila til að fara yfir verkferla vegna eineltis í skólum Reykjavíkurborgar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eineltismál í Austurbæjarskóla vakti mikinn óhug þegar greint var frá því í liðinni viku.
Eineltismál í Austurbæjarskóla vakti mikinn óhug þegar greint var frá því í liðinni viku. Fréttablaðið/Vilhelm
Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum í gær að óháður aðili verði fenginn til að fara yfir verkferla starfsstöðva skóla-og frístundasviðs vegna eineltis og samskiptavanda barna. Jafnframt vill ráðið að lagðar verði fram tillögur til úrbóta, „þar á meðal með hliðsjón af breytingum sem fylgt hafa auknum rafrænum samskiptum barna og ungmenna,“ eins og segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Eineltismál sem fjallað var um í liðinni viku vakti mikinn óhug en myndband af líkamsárás sem unglingsstúlka varð fyrir af hálfu skólasystra sinna fór í dreifingu á netinu og var auk þess sýnt í kvöldfréttum RÚV. Árásin átti sér stað á skólalóð Langholtsskóla en stúlkurnar ganga í Austurbæjarskóla.

Foreldrar stúlkunnar kærðu málið til lögreglu og gagnrýndu viðbrögð skólayfirvalda vegna eineltis sem dóttir þeirra hefur orðið fyrir í Austurbæjarskóla.

Í samtali við Fréttablaðið um liðna helgi sagði faðir stúlkunnar að hún hefði orðið fyrir ofbeldi og líflátshótunum innan veggja skólans og hefur farið fram á óháða nefnd til að skoða málsmeðferð hennar í skólanum.

„Ég hef þurft að sækja hana í skólann í aðstæður sem voru afar ógeðfelldar. Hún hafði þá leitað skjóls á skrifstofu námsráðgjafa. Við sátum þar, ég, hún og námsráðgjafinn og á meðan hömuðust fjórar stúlkur á hurðinni. Starfsmenn skólans þurftu að stilla sér upp á milli okkar til að við kæmumst út,“ sagði faðirinn.

Frá því var svo greint í kvöldfréttum RÚV í gær að líkamsárásin teljist upplýst. Þrjár stúlkur eru gerendur í málinu en tvær þeirra eru ósakhæfar. Mál þeirra hafa verið send til barnaverndarnefnda í Reykjavík og Hafnarfirði en mál stúlkunnar sem er sakhæf er til meðferðar hjá ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×