Innlent

Ljósmóðirin gaf sig ekki og sagði nýbakaðri mömmunni að taka við barninu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Halla ásamt syninum Andra Val á góðri stundu árið 1988. Ef vel er að gáð er Andri Valur í Manchester United náttfötum en hann er gallharður stuðningsmaður liðsins.
Halla ásamt syninum Andra Val á góðri stundu árið 1988. Ef vel er að gáð er Andri Valur í Manchester United náttfötum en hann er gallharður stuðningsmaður liðsins.
Óhætt er að segja að fréttir af afanum sem fyrir mistök fór heim með rangt barn af leikskóla á Akureyri í gær hafi rifjað upp sambærilegar minningar þar sem hurð skall nærri hælum. Þannig er það í tilfelli Höllu B. Þorkelsson sem fæddi í september 1980 ljósan og fagran dreng. Þó stefndi í að hún færi heim með dökkhærða stúlku.

Halla skellir upp úr í samtali við Vísi en hún hafði vissulega séð frétt gærdagsins af barnavíxluninni norðan heiða. Hún segist hafa verið átján ára þegar hún lagðist inn á fæðingardeildina og fæddi sitt elsta barn, sem síðar fékk nafnið Andri Valur.

Vakti hana fruntulega

Hún lýsir því þannig að hún hafi lagt sig að lokinni fæðingu og vaknaði við það að ljósmóðirin vakti hana nokkuð „fruntulega“. Sú hafi verið mjög ákveðin og rétt henni dökkhært stúlkubarn. Sagði hún henni tíma til kominn að fara á fætur, hún væri búin að sofa nóg, því nú þyrfti að gefa barninu að drekka. 

„Ég var drullufeiminn, þorði varla að andmæla einum né neinum,“ segir Halla létt og greinilega fyrir lifandi löngu búin að jafna sig á þessari uppákomu, og hlæja mikið. Hún hreifði þó við mótmælum en ljósmóðirin brást reiðilega við. 

„Þú ert svo ung,“ hefur Halla eftir ljósmóðurinn og telur að aldurinn hafi átt að vísa til þess að hún stigi ekki í vitið sökum þess hve ung hún væri. „Það vantaði „og vitlaus“,“ segir Halla.

Ljósmóðirinn hafi í kjölfarið sagt við hana „taktu barnið stelpa“ og ýtt við henni. Höllu til aðstoðar kom kona sem einnig lá á fæðingardeildinni. Hún hafi spurt ljósmóðurina að því hvað hún væri að reyna að ota stelpunni að „krakkanum“ en með krakkanum átti konan við Höllu. Þá hafi ljósmóðirin horfið á braut, með stúlkubarnið.

Átján ára voru „núll og nix“

„Hún lét sig í alvöru ekkert fyrr en konan í næsta húsi kallaði á hana,“ segir Halla. Hún hafi svo fengið drenginn sinn til sín og hann sé jafnyndislegur í dag og hann var þá.

Halla segir tíðarandann augljóslega hafa verið allt annan fyrir rúmum 35 árum. Átján ára stúlkur hafi verið „núll og nix“ á meðan ljósmóðirin var æðsta valdið. Hún hafi til dæmis náð í barnið sitt og tekið upp í rúm en uppskorið húðskammir. Hennar væri að liggja í rúminu fyrstu þrjá dagana.

Í þá daga hafi feðurnir ekki fengið að vera viðstaddir fæðinguna og vinkona hennar, sem eignaðist barn tveimur árum síðar, þurfti að berjast fyrir því með kjafti og klóm að faðir hennar, hennar stoð og stytta í lífinu, væri með henni á deildinni.

„Sem betur fer breyttist þetta,“ segir Halla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×