Erlent

Bandaríkin gangsetja eldflaugavarnakerfi í Rúmeníu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Bandaríkin gangsettu í dag eldflaugavarnarkerfi í Rúmeníu. Kerfið verður hluti af stærra varnarkerfi sem nær yfir alla austur Evrópu. Rússar segja kerfið ógna öryggi sínu. NATO segir kerfið ekki draga úr mætti kjarnorkuvopna Rússlands.

NATO og Bandaríkin segja kerfinu í Rúmeníu ætla að verja Evrópu gegn mögulegum eldflaugaárásum frá Íran. Það sé ekki hannað til að stöðva langdrægar kjarnorkuflaugar. Til stendur að koma upp sambærilegu kerfi í Póllandi.

„Gegn hverjum verður þessu kerfi beitt?,“ spurði talsmaður Vladimir Putin í dag. „Upprunalega fengum við þær útskýringar að þetta væri gegn mögulegum eldflaugaskotum frá Íran. Nú vitum við að staðan hefur breyst verulega“

Samband vesturveldanna og Rússlands hefur versnað verulega frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014. Vinna við eldflaugavarnarkerfið hófst árið 2013. Þá hefur samband Bandaríkjanna og Íran skánað.

Rússar segjast ætla að gera ráðstafanir til að „viðhalda öryggi sínu“. Ekki hefur verið sagt hverjar þær ráðstafanir verða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×