Innlent

Fundum fækkað til að stytta vinnudaginn

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Mikil ánægja er meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar sem tekið hafa þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar. Starfsfólkið er úthvíldara eftir helgarnar og getur varið meiri tíma með fjölskyldunni. Hjá Barnavernd Reykjavíkur hefur árangur haldist óbreyttur þrátt fyrir styttri vinnuviku en þar hefur starfsmannafundum verið fækkað.

Í dag voru kynntar niðurstöður tilraunaverkefnis hjá Reykjavíkurborg um styttri vinnuviku án þess að skerða laun. Verkefnið hefur nú verið í gangi í rúmt ár en það hófst í mars í fyrra þegar vinnuvikan var stytt á tveimur starfstöðvum borgarinnar. „Niðurstöðurnar benda til þess að þetta hafi jákvæð áhrif á andlega og líkamlega líðan og starfsánægju og við sjáum vísbendingar um að þetta geti verið það sem koma skal,“ segir Sóley Tómasdóttir formaður stýrihóps um verkefnið. 

Annar af þeim vinnustöðum þar sem vinnuvikan var stytt er Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts. Þar var vinnuvikan stytt um fimm tíma. Hver vinnudagur er nú klukkustund styttri en áður og starfsmenn ljúka störfum klukkan þrjú.

„Hvað okkur varðar sjálf þá erum við ákaflega ánægð með þetta verkefni,“ segir Þorgeir Magnússon deildarstjóri Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts. “Í sumum verkefnum þá hefur okkur vegnað held ég bara nokkuð vel. Við höfum getað hagrætt og unnið hraðar og öðruvísi og breytt skipulagi. Mér finnst nú að okkur hafi ekki alltaf tekist það. Sum verkefni eru þess eðlis að þú þarft tíma í þau og á einstaka stöðum hafa myndast lengri biðlistar heldur en áður,“ segir Þorgeir.

„Til dæmis get ég sótt börnin mín fyrr í leikskólann og ég næ að eyða meiri tíma með fjölskyldunni minni,“ segir María Rut Baldursdóttir daggæsluráðgjafi hjá Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts. 

Hinn vinnustaðurinn sem tók þátt í tilraunaverkefninu er Barnavernd Reykjavíkur. Þar var vinnuvikan stytt um fjóra tíma og hætta starfsmenn nú á hádegi á föstudögum. „Fólk er svona úthvíldara og sumir lýsa því raunverulega þegar þeir koma á mánudagsmorgni að það sé eins og þeir hafi verið í bara löngu helgarfríi“ segir Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur.

Halldóra segir að afköstin nú séu þau sömu og áður en vinnuvikan var stytt. Nokkrar leiðir hafa verið farnar til að það styttri vinnuvika gangi upp. Þannig hefur skipulagi verið breytt og starfsmannafundum til að mynda fækkað. Þeir eru nú hálfsmánaðarlega í stað vikulega. „Við tókum alveg markvisst ákvörðun saman sem hópur að reyna að draga úr því að fólk fái að skreppa á vinnutímanum og það virðist hafa borið árangur. Það er ekki hægt að merkja að það hafi dregið úr árangri hérna eða að það hlaðist upp fleiri verkefni og við höfum ekki orðið vör við neinar kvartanir frá okkar samstarfsfólki eða fjölskyldum sem við erum að sinna sem skiptir líka miklu máli,“ segir Halldóra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×