Innlent

Fimmtán mánaða fangelsi fyrir ítrekaðar árásir gegn börnum sínum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Vísir/GETTY
Hæstiréttur hefur staðfest fimmtán mánaða fangelsisdóm yfir karlmanni sem sakfelldur var fyrir líkamsárásir gegn eiginkonu sinni og brot gegn barnaverndarlögum gegn þremur ungum börnum sínum. Honum var gert að greiða þeim samtals 3,1 milljón króna í skaðabætur.

Réðst á stúlkuna með járnröri

Maðurinn var sakaður um ólögmæta nauðung, líkamsárásir, stórfelldar ærumeiðingar og barnaverndarlagabrot á átta ára tímabili gagnvart fjölskyldumeðlimum. Hann var meðal annars sagður hafa í nokkur skipti hent dóttur sinni út af heimili sínu, illa búinni til fótanna. Þá hafi hann ráðist á hana og kastað í hana grjóti.

Stúlkan lýsti árásunum fyrir dómi. Hún sagði föður sinn meðal annars í tvígang slegið sig með ryksuguröri úr járni. Hún lýsti aðdraganda síðara atviksins, sem var ári fyrir fermingu hennar, sem svo að maðurinn hafi rifið sig niður úr koju, hent sér í gólfið og lamið sig með ryksugurörinu. Hún hafi reynt að skríða undir rúm en að faðir hennar hafi náð í fót hennar og lamið hana föstum höggum með rörinu í maga, höfuð og bak. Hann hafi beitt rörinu eins og hafnaboltakylfu. Móðurinni tókst að lokum að stöðva árásina.

Hótaði að senda dóttur sína á „hræðilegan stað“

Önnur dóttir mannsins sagðist hafa orðið fyrir ítrekuðum árásum af hálfu föður síns allt frá leikskólaaldri, en ekki er greint frá aldri stúlkunnar í dómnum. Stúlkan, sem býr við andlega fötlun, sagði föður sinn ítrekað sagst ætla að senda sig á hræðilegan stað – Sólheima í Grímsnesi, eða annað sambýli.

Þá var manninum einnig gefið að sök að hafa ítrekað veist að syni sínum, slegið hann og kýlt. Drengurinn átti erfitt með að greina frá einstökum tilvikum og sagði fyrir dómi að hann vildi helst gleyma þeim. Hins vegar hafi hann verið beittur ofbeldi nær daglega.

Eiginkona mannsins lýsti einnig líkamsárásum af hálfu hans. Hún sagðist hafa slasast en ekki þorað að fara til læknis þar sem maðurinn hafði haft í hótunum við sig og börnin. Hún hafi óttast að hann myndi gera börnunum eitthvað ef hún segði frá.

Ekkert mátti út af bregða

Konan sagði andrúmsloft á heimilinu hafa verið mjög þvingað og að ekkert hafi mátt út af bregða þá hafi maðurinn tekið eitthvert barnanna og lamið eða kýlt, til dæmis ef djús helltist niður. Versti tíminn hafi verið í skólafríum og þegar maðurinn var atvinnulaus, en það hafi verið í langan tíma.

Maðurinn var sakfelldur fyrir mörg brot gegn almennum hegningarlögum og barnaverndarlögum gegn börnunum og tvær líkamsárásir gegn eiginkonu sinni.

Dómurinn sagði að ekki yrði horft fram hjá því að lögregla lauk rannsókn málsins í nóvember 2013, en ákæra ekki gefin út fyrr en í desember 2014. Sjö mánuðir liðu frá því að ríkissaksóknara bárust dómsgerðir frá héraðsdómi þar til málsgögn voru afhent Hæstarétti. Vegna þeirra tafa geti ekki komið til álita að þyngja refsingu ákærða.

Dóminn í heild má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×