Körfubolti

Jón Arnór mögulega á heimleið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Arnór Stefánsson á Íslandi næsta vetur?
Jón Arnór Stefánsson á Íslandi næsta vetur? vísir/valli
Jón Arnór Stefánsson, besti körfuboltamaður þjóðarinnar, gæti verið á heimleið í sumar og spilað í Dominos-deildinni næsta vetur. Þetta kemur fram í viðtali við hann í Morgunblaðinu í morgun.

„Það er ekkert leyndarmál að ég hef verið að velta því fyrir mér. Góðar líkur eru á því að ég komi heim en ég ætla samt sem áður ekki að loka neinum dyrum. Ég ætla bara að skoða mín mál eftir tímabilið,“ segir Jón Arnór.

Jón Arnór spilar með Valencia í spænsku úrvalsdeildinni þar sem liðið er í baráttu um annað sætið áður en úrslitakeppnin tekur við. Hann heldur því opnu að vera áfram úti ef spennandi tilboð býðst í sumar.

„Ég er að spila ofboðslega vel og mér líður vel. Því væri kannski synd að taka ekki eitt ár í viðbót í atvinnumennskunni,“ segir Jón Arnór sem ætlar að gefa kost á sér í íslenska landsliðið fyrir undankeppni EM 2017 í sumar.

„Ég einbeiti mér að því og ef til vill koma tilboð inn á borð til mín í sumar. Ef eitthvert þeirra kitlar þá skoðar maður það,“ segir Jón Arnór Stefánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×