Skoðun

Bjarni Bernharður og skírleiki litanna

Jón Proppé skrifar
Bjarni Bernharður hefur fengist við myndlist lengi en málverk hans hafa þróast hratt á síðustu árum. Lengi vel vann hann t.d. bæði með akrýl- og olíuliti en hefur nú einbeitt sér alfarið að olíulitunum. Með þeim er hægt að ná fram meiri dýpt og lífi í litaflötunum og þeir bjóða upp á flóknara skuggaspil og fínlegri litbrigði. Bjarni nýtir þessa eiginleika þó öðru vísi en flestir málarar. Málverk hans eru björt og byggð upp af líðandi formum í hreinum, afgerandi litum. Hann leyfir litunum sjaldan að renna saman heldur lifir hver flötur sínu lífi og myndbyggingin snýst um að láta þessi litaform takast á og ná samhljómi á myndfletinum. Birtan, litagleðin og vandlega afmarkaðir fletirnir eru sterkustu höfundareinkenni Bjarna.

Málverk Bjarna síðustu árin eru flest abstraksjónir þótt stundum megi greina í þeim landslag eða jafnvel andlit. Hann beitir þó oftast sömu nálgun hvort sem myndirnar eru algerlega óhlutbundnar eða ekki; liturinn og samspil litaflatanna eru alltaf í fyrirrúmi. Að þessu leyti sverja málverkin sig í ætt við abstrakthefð tuttugustu aldar en horfa jafnframt lengra aftur, allt aftur á miðaldir. Þá studdust málarar við litahugmyndir sem byggðu á kenningum nýplatónska heimspekingsins Plotínusar frá þriðju öld. Plotínus taldi að litir og ljós væru birtingarmyndir guðdómsins og því var lögð áhersla á bjarta og skíra liti, jafnt við gerð helgimynda sem og skreytingar í handritum, og þessi áhersla liggur líka að baki blaðgullinu sem notað var óspart í myndum, stórum sem smáum. Um þetta höfðu menn latneska hugtakið claritas sem kannski mætti þýða sem skírleika. Bjartir og heilir litafletir þóttu komast næst því að tjá hinn tæra helgidóm handan veraldlegrar skynjunar okkar. Í heimspeki Platóns er þetta heimur hinna hreinu frummynda – tærra hugmynda, hinna eiginlegu dyggða, og hinna hreinu lita. Litirnir sem birtast okkur hversdagslega eru óhreinir og óskýrir, eins og skuggar af þessum hreinu og skíru frummyndum.

Slíkar hugmyndir réðu í málaralistinni um aldir og það var ekki fyrr en með ítalska málaranum Giotto á fjórtándu öld og svo endurreisnarmálurunum sem komu í kjölfarið að nýr stíll varð til og það voru einmitt olíulitirnir sem gerðu Leonardo da Vinci og öðrum kleift að skapa þessi fínlegu lit- og birtubrigði sem við dáumst að í málverkum eins og Monu Lisu. Þessi nálgun þótti vera nær náttúrunni, nær því sem við skynjum í raunveruleikanum, og fyrir mörgum er þetta raunsæi enn höfuðmarkmið myndlistarinnar.

Það kom hins vegar allt til endurskoðunar með módernismanum og sérstaklega með abstraktlistinni. Markmiðið var ekki lengur að endurskapa veruleikann eins og okkur finnst við sjá hann, heldur vildu abstraktmálararnir skilja eiginleika litanna sjálfra og hafa þá í fyrirrúmi. Þeir máluðu heila litafleti og reyndu að þróa nýja litafræði til að skilja hvernig samspili þeirra gæti verið háttað á myndfletinum. Það væri ofsagt að halda því fram að þeir hafi ætlað sér að hverfa aftur til nýplatónskunnar en þó lögðu margir þeirra andlegan skilning í viðfangsefnið – t.a.m. Wassili Kandinsky og Hilma af Klint. Málverk Bjarna Bernharðs minna oft á verk þessara frumkvöðla abstraktsins, einmitt í því hvernig hann meðhöndlar litina. Jafnvel þegar við sjáum landslag í verkum Bjarna dettur okkur ekki í hug að hann sé að mála fjall og himin í þeim litum sem hann sá þegar hann horfði á fjallið. Litirnir í þessum málverkum eru ekki hinir hversdagslegu litir veruleikans heldur tilheyra þeir öðrum heimi – heimi litanna sjálfra – og reglan sem þeir lúta er nær heimspeki en raunsæi.

Það er ótrúlega vandasamt að mála eftir þessari aðferð, að láta litina spila saman þannig að úr verði áhugaverður samhljómur. Margir abstraktmálarar takmörkuðu sig við fáa liti, einmitt til að hafa meira vald á þessu samspili og myndbyggingunni. Þetta átti þó ekki við um helsta frumkvöðul íslenskrar abstraktlistar, Svavar Guðnason. Samtímamenn hans dáðust einmitt að því hvernig hann gat raðað saman ótal litum í eina mynd, mörgum afmörkuðum flötum í alls konar litum og litbrigðum, en látið samt allt ganga upp í iðandi en formfastri myndbyggingu. Eins og Svavar notar Bjarni nær allan litaskalann og gefur líka birtu litanna sérstakan gaum – skírleikanum. Hvert málverk er þannig flókið ferðalag þar sem litafletirnir eru málaðir aftur og aftur þangað til réttur samhljómur er fundinn og þegar við skoðum þau þurfum við að staldra við, skoða vel og „hlusta“ eftir þessum samhljóm. Kannski höfum við þá heyrt einhvern enduróm af guðdómnum sem Plotínus var að tala um fyrir næstum 1800 árum.

Greinin er skrifuð í tilefni málverkasýningar Bjarna Bernharðs Bjarnasonar í Gerðubergi, efri sal,  laugardaginn 7 mái kl. 14:00.






Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×