Erlent

Samkynja hjónabönd samþykkt í Færeyjum

Bjarki Ármannsson skrifar
Umræðan um það hvort leyfa eigi samkynja hjónabönd hefur verið heitt deilumál í Færeyjum um hríð.
Umræðan um það hvort leyfa eigi samkynja hjónabönd hefur verið heitt deilumál í Færeyjum um hríð. Vísir/AFP
Færeyska lögþingið samþykkti í atkvæðagreiðslu sem lauk eftir miðnætti í gær breytingar á hjúskaparlögum sem leyfa samkynja hjónabönd. Að því er færeyskir miðlar greina frá, greiddu nítján þingmenn atkvæði með breytingunum en fjórtán gegn þeim. Enginn skilaði auðu.

Málið á eftir að fara til þriðju umræðu í þinginu á föstudag áður en breytingarnar ganga í gegn. Þær fela í sér að borgalegar hjónavígslur samkynhneigðra eru leyfðar en þær mega ekki fara fram í kirkju. 

Umræðan um það hvort leyfa eigi samkynja hjónabönd hefur verið heitt deilumál í Færeyjum um hríð. Frumvarpið sem samþykkt var í nótt hefur verið í nefnd frá því í nóvember en meðal flutningsmanna þess er fyrsti opinberlega samkynhneigði þingmaðurinn í sögu Færeyja.

Þegar niðursstaðan lá fyrir í nótt brutust út mikil fagnaðarlæti í Þórshöfn, en þar búa flestir samkynhnneigðir eyjaskeggjar. Þá hafði fjöldi fólks eitt deginum í þinghúsinu að fylgjast með umræðunum og greina færeyskir miðlar frá því að mikið lófatak hafi brotist út og tár fallið þegar niðurstaðan lá fyrir.


Tengdar fréttir

Víðsýnin við völd í Færeyjum

Færeyingar eru víðsýnni og umburðarlyndari en margir halda. Þetta segir fyrsti opinberlega samkynhneigði þingmaðurinn í Færeyjum, eftir sögulegar þingkosningar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×