Innlent

Dæmdur til að greiða hundruð þúsunda vegna fermingar­veislu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Kakan á myndinni tengist fréttinni ekki einu sinni pínu lítið.
Kakan á myndinni tengist fréttinni ekki einu sinni pínu lítið. vísir/getty
Karlmaður á fimmtugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur til að greiða 101.027 krónur auk dráttarvaxta frá 17. apríl 2015. Frá upphæðinni dregst innborgun, 101.027 krónur, sem innt var af hendi 2. nóvember í fyrra.

Skuldin var tilkomin vegna veisluþjónustu sem maðurinn keypti af Veislulist ehf. í tengslum við fermingarveislu sonar hans. Kostnaður við veisluna nam 181.027 krónum og greiddi maðurinn 80.000 krónur fyrir fram. Að sögn mannsins óskaði hann eftir því að eftirstöðvunum yrði skipt upp í tvær greiðslur og settar á greiðslukort hans. Veisluþjónustan kannaðist hins vegar ekki við það og setti reikningin í innheimtu.

Þann 31. október síðastliðinn var manninum birt stefna til innheimtu skuldarinnar en áður höfðu honum verið send bréf vegna vanskila. Þann 2. nóvember greiddi hann 101.027 krónur til Veislulistar.

Fyrir dómi bar maðurinn því við að hann hefði gefið upp kortanúmer sitt og leyninúmer fyrir eftirstöðvunum. Þá hafi honum ekki verið kunnugt um vanskilin þar sem honum hafi illa borist póstur. Hann taldi stefnanda málsins, Veislulist ehf., hafa samþykkt greiðsluna 2. nóvember sem fullnaðarkvittun og það handsalað og undirritað.

Í niðurstöðu dómara málsins kemur fram að ósannað sé að um fullnaðarkvittun hafi verið að ræða. Einnig var ekki fallist á þá málsástæðu hans að honum hafi ekki verið kunnugt um vanskilin.

Auk þess að þurfa að greiða eftirstöðvar skuldarinnar var manninum gert að greiða málskostnað, 250.000 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×