Innlent

Sig­mundur Davíð: Mark­mið sjón­varps­mannanna var að láta mig líta illa út

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Nú hefur verið upplýst í sænskum sjónvarpsþætti að þeir sjónvarpsmenn sem í hlut áttu undirbjuggu skipulega viðtal við mig með það eitt í huga að ég yrði látinn líta sem verst út,“ skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, í bréfi til flokksmanna Framsóknar.

Bréfið sendi Sigmundur í dag en það má finna í heild sinni inn á vef Eyjunnar. Í því upplýsir hann að hann hafi í hyggju að verja tíma með fjölskyldu sinni næstu daga og vikur. Í kjölfarið ætlar hann að fara um landið og ræða við samflokksfólk sitt.

Í bréfinu tekur Sigmundur fram að þrátt fyrir uppleggið í viðtalinu þá er hann fyrstur manna til að viðurkenna að hann „stóð sig illa í umræddu viðtali“. Á sama augnabliki hafi hann áttað sig á því að aðdragandi viðtalsins hafi verið byggður á ósannindum og að tilgangurinn hefði verið „að leiða sig í gildru“.

„Ég bið ykkur afsökunar á frammistöðu minni í umræddu viðtali. Engum finnst sú frammistaða sárari en mér sjálfum,“ skrifar hann.

Í niðurlagi bréfsins upplýsir formaður Framsóknarflokksins að hann hafi, að loknu fríi, í hyggju að ferðast um landið og ræða stöðuna í samfélaginu við fólk. Mörgu sé enn ólokið og enn sé hægt að halda áfram að nýta tækifæri Íslands.

„Ég trúi því að staðreyndir, skynsemi, rök og sannleikurinn sigri að lokum. Þess vegna er ég framsóknarmaður,“ skrifar hann að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×