Erlent

Björgunarmenn missa vonina

Samúel Karl Ólason skrifar
Um 1.500 byggingar skemmdust eða eyðilögðust í jarðskjálftanum og um 20.500 manns halda nú til í tjöldum.
Um 1.500 byggingar skemmdust eða eyðilögðust í jarðskjálftanum og um 20.500 manns halda nú til í tjöldum. Vísir/EPA
Björgunarmenn í Ekvador telja sífellt ólíklegra að fólk muni finnast lifandi í rústum þar í landi eftir gríðarstóran jarðskjálfta á laugardaginn. Minnst 443 eru látnir og segja yfirvöld þar í landi að 231 sé enn saknað. Búist er við því að tala látinna muni hækka enn frekar á næstu dögum.

Rúmlega fjögur þúsund manns slösuðust í skjálftanum sem var 7,8 stig.

Rafael Correa, forseti Ekvador, segir að tjónið vegna jarðskjálftans sé á bilinu tveir til þrír milljarðar dala. Líklega muni tjónið slá tvö til þrjú prósentustig af hagvexti í landinu. Efnahagur Ekvador er þegar í vandræðum vegna mikillar lækkunar olíuverðs undanfarna mánuði.

Samkvæmt Reuters var búið að spá rétt rúmlega núll prósenta hagvexti í landinu áður en jarðskjálftinn varð.

Um 1.500 byggingar skemmdust eða eyðilögðust í jarðskjálftanum og um 20.500 manns halda nú til í tjöldum.

Hjálparstofnanir vinna nú að því að koma Ekvador til hjálpar. Fjölmargir eru sagðir í hættu vegna sjúkdóma og óhreins vatns. Íbúar sögðu blaðamönnum BBC að lykt af rotnandi líkum væri megn á þeim svæðum sem verst urðu úti.


Tengdar fréttir

Jarðskjálfti kostaði hundruð manna lífið

Skjálftinn í Ekvador mældist 7,8 stig og er sá versti þar í landi síðan árið 1979. Skjálftinn olli miklu eignatjóni og vel á annað þúsund manns urðu fyrir meiðslum. Rafael Correa forseti lýsti yfir neyðarástandi í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×