Körfubolti

Brynjar: Fengum engar skýringar frá KKÍ

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brynjar Þór í leiknum í kvöld.
Brynjar Þór í leiknum í kvöld. Vísir/Ernir
Brynjar Þór Björnsson, bakvörður í KR, segir að það hafi verið furðuleg ákvörðun að láta lið sitt bíða aukadag eftir fyrsta leik sínum í undanúrslitum Domino's-deildar karla.

KR mætti Njarðvík í kvöld og vann nauman sigur í tvíframlengdum leik. Njarðvík þurfti oddaleik í sinni rimmu í 8-liða úrslitum til að fara áfram og var að spila á fimmtudaginn. En KR hafði beðið eftir leiknum í kvöld í tólf daga.

„Þetta var bara glataður leikur. Það verður að segjast eins og er,“ sagði KR-ingurinn Brynjar Þór eftir nauman sigur KR, 69-67.

Hann, eins og svo margir KR-ingar, fann ekki fjöl sína í sóknarleiknum og skoraði einungis sjö stig í leiknum.

„Við vorum hræðilega lélegir. Við áttum að vera löngu búnir að klára þetta en þessi tólf daga pása fór í lappirnar okkar og við vorum þungir.“

„Það er erfitt að bíða í tólf daga. Þeir fengu reyndar aukadag til að jafna sig eftir sína rimmu sem hjálpaði þeim. Maður fann í byrjun leiks að maður var ekki tilbúinn í þetta enda byrjuðu Njarðvíkingar þetta af þvílíkum krafti.“

Hann segir að KR-ingar hafi ávallt reiknað með því að fá fyrri leikdaginn í undanúrslitunum, ekki þann síðari eins og raunin varð.

„Deildarmeistararnir hafa alltaf verið á undan og fengið að ráða. En af einhverjum ótrúlegum ástæðum þá vorum við færðir um einn dag og menn voru ekki sáttir við það. Við fengum engar skýringar og er þetta skrýtið mál.“

„Það var orðið afar erfitt að bíða.“

Hann segir að þrátt fyrir lágt stigaskor hafi sóknarleikur KR verið góður í kvöld.

„Við vorum að fá opin skot, hvað eftir annað, og allt það sem við vildum. En við vorum ekki að hitta.“

„Ef við hittum bara úr þessum skotum sem við vorum að fá í dag þá skorum við meira en 69 stig eftir tvær framlengingar. Það er fullvíst.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×