Körfubolti

Atkinson: Sóknarvilla fyrir það sem manni er kennt að gera

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Atkinson í leiknum í kvöld.
Atkinson í leiknum í kvöld. Vísir/Ernir
Bandaríkjamaðurinn Jeremy Atkinson var svekktur eftir tap gegn KR í DHL-höllinni í kvöld. Hann fékk dæmda á sig afdrifaríku sóknarvillu í lok síðari framlengingar leiksins sem hafði mikið að segja um úrslit leiksins.

„Þetta var gott. Menn voru að spila góðan körfubolta,“ sagði Atkinson eftir leikinn en vildi greinilega lítið segja um dóminn umdeilda.

„Ég get ekki sagt of mikið um hann. Við eigum fjóra leiki eftir í seríunni og það verður að halda þeim góðum. En ég veit ekki hvað væri hægt að segja, það voru nokkrar ákvarðanir teknar í lokin sem eru umdeildar.“

Hann segir að Njarðvíkingar hafi þó ekki látið dómgæsluna á sig fá og spilað í gegnum það. Atkinson hrósaði Hauki sérstaklega.

„Hann setti niður ótrúlegt skot sem kom okkur í síðari framlenginguna,“ sagði Atkinson og hristi svo hausinn.

„Síðan kom síðasta sóknin. Ég er með tvo menn í mér og fæ dæmda á mig sóknarvillu fyrir að gera það sem manni var kennt að gera,“ sagði hann.

„En svona er þetta. Stuðningsmennirnir fengu tíu aukamínútur af góðum körfubolta. Og nú þurfum við bara að fara heim og vinna. Einhverra hluta vegna hefur okkur gengið illa að vinna í ljónagryfjunni en nú þurfum við bara að vinna.“

Á meðan Njarðvíkingar þurftu að fara í oddaleik til að komast í undanúrslitin biðu KR-ingar lengi eftir þessum leik í kvöld.

„Við héldum að við yrðum þreyttir í kvöld en svo var ekki. Við erum alls ekki búnir og höfum ekki sagt okkar síðasta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×