Innlent

Vilja gera mynd um baráttu fyrir betra lífi

Áslaug Ýr Hjartardóttir vill gera heimildarmynd með systur sinni Snædísi Rán, kvikmyndagerðarkonunni Söndru Helgadóttur og Guðnýju Einarsdóttur.
Fréttablaðið/Anton brink
Áslaug Ýr Hjartardóttir vill gera heimildarmynd með systur sinni Snædísi Rán, kvikmyndagerðarkonunni Söndru Helgadóttur og Guðnýju Einarsdóttur. Fréttablaðið/Anton brink
Samfélag Systurnar Áslaug Ýr og Snædís Rán Hjartardætur hafa barist ötullega fyrir bættum lífsgæðum sínum og annarra með sömu fötlun, en þær eru báðar með sjaldgæfan taugarhrörnunarsjúkdóm. Snædís Rán stefndi íslenska ríkinu fyrir að veita henni ekki þá túlkaþjónustu sem hún þarf og systurnar hafa báðar ítrekað vakið athygli á skertum lífsgæðum fólks í sömu stöðu. Nú ætla þær að leggja fyrir sig kvikmyndagerð og stefna á að gera heimildarmynd um aðstæður sínar og annarra í sömu stöðu. Áslaug Ýr segist ekki hafa áttað sig á því hversu slæm lífsgæði hennar voru fyrr en hún varð sjálfráða. Hennar lífsgæði séu þó góð í samanburði við aðra með sömu fötlun sem búa ekki í Reykjavík. „Þó lífsgæði mín séu frekar slæm, þá er annað fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu hér á landi sem býr við miklu verri lífsgæði en ég. Þetta fólk fær ekki nauðsynlega aðstoð eins og það þarf, fær ekki nauðsynlega túlkaþjónustu af því það býr ekki í Reykjavík.“ Áslaug Ýr segir að fengi hún tækifæri til að bæta lífsgæði sín og annarra í sambærilegri stöðu myndi hún fyrst og fremst lögleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. „Ég myndi vilja lögfesta NPA-þjónustuna, breyta fyrirkomulagi túlkaþjónustunnar, samræma reglur sveitarfélaga um félagsþjónustu svo fólk þurfi ekki sífellt að vera að flytja á milli staða til að fá þá þjónustu sem það þarf. En fyrst og fremst er að lögleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, því þá verða réttindi okkar tryggð og ég hef trú á því að það eigi eftir að stórbæta lífsgæði margra.“ Að heimildarmyndinni koma einnig Guðný Katrín Einarsdóttir sem starfar sem ráðgjafi hjá Fjólu, félagi fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, og Sandra Helgadóttir, leikkona og kvikmyndagerðarmaður, sem hefur yfirumsjón með myndinni og framleiðir og leikstýrir myndinni. Guðný, Sandra, Áslaug og Snædís safna fyrir gerð hennar á Karolina Fund undir heitinu; Manneskja eins og þú. kristjanabjorg@frettabladid.is

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×