Innlent

Samfélagsmiðlar segja öðrum hvar þú ert

Snærós Sindradóttir skrifar
Ef þessi kona er að birta sjálfu á Instagram getur forritið Cree.py sagt öðrum nákvæmlega hvar hún er.
Ef þessi kona er að birta sjálfu á Instagram getur forritið Cree.py sagt öðrum nákvæmlega hvar hún er. NordicPhotos/Getty
Almenningur hefur aðgang að forritum og öppum sem gerir honum kleift að fylgjast með nákvæmri staðsetningu annarra í gegnum samfélagsmiðla. Í einhverjum tilfellum er ferlið flókið en í öðrum er einfalt að komast að því hvar annað fólk er með mjög nákvæmum hætti.

Samfélagsmiðillinn Grindr, sem er stefnumótaforrit ætlað samkynhneigðum og tvíkynhneigðum körlum, hefur þann eiginleika að sýna notandanum álitlega karlmenn innan nokkurra kílómetra radíuss. Með forritinu Fuckr er hins vegar hægt að kalla fram hárnákvæma staðsetningu notenda Grindr þannig að þú vitir að sá sem þú spjallar við sé í tilteknu húsi við einhverja ákveðna götu.

Annað dæmi er forritið Cree.py sem safnar saman upplýsingum sem samfélagsmiðlar á borð við Twitter og Instagram safna um notendur. Með þeim hætti er hægt að fylgjast með hvar einhver annar var eða er staddur þegar hann notar Twitter eða setur mynd á Insta­gram.



Smári McCarthy


„Það eru samfélagsmiðlarnir sem eru að njósna um þig. Önnur forrit nýta sér það með því að spyrja samfélagsmiðlana spurninga sem samfélagsmiðlarnir vilja ekki að almenningur viti að hægt sé að spyrja,“ segir Smári McCarthy, tæknistjóri hjá Organized Crime and Corruption Reporting Project.

„Twitter-mobile appið og Face­book-mobile appið senda alls konar upplýsingar með þegar þú skrifar athugasemd eða breytir stöðunni þinni. Það hvaða upplýsingar eru sendar út fer eftir stillingunum þínum en þær innihalda að jafnaði lýsigögn eins og hvað klukkan er, í hvaða tímabelti þú ert, hvar nákvæmlega þú ert staddur og margt fleira. Á meðan samfélagsmiðlarnir safna gögnum mun alltaf einhver geta skoðað þau.“

Smári segir að notendur geti varið sig lítillega með því að breyta stillingum sínum á þá leið að forritið fái ekki að skrá staðsetningu þeirra. Hann segir þó að í sannleika sagt sé það að mestu leyti tilgangslaust, alltaf sé hægt að fara í kringum það. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×