Innlent

Upptökur og endurvarp fjarskipta á netinu stöðvaðar að kröfu flugmanna

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Flugumferðarstjórar í flugturninum í Reykjavík eiga mikil samskipti við flugmenn á talstöðvartíðni sem hægt er að hlusta á með einföldum tækjum.
Flugumferðarstjórar í flugturninum í Reykjavík eiga mikil samskipti við flugmenn á talstöðvartíðni sem hægt er að hlusta á með einföldum tækjum. Fréttablaðið/Ernir
„Það er ekki samkvæmt íslenskum lögum að það sé hægt að hlusta á upptökur á talstöðvarviðskiptum á netinu,“ segir Steinþór Páll Ólafsson, fráfarandi formaður Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, um endurvarp og upptökur á flugfjarskiptum hérlendis á síðunni liveatc.net.

Hægt var um skeið að hlusta á talstöðvarsamskipti flugmanna og flugumferðarstjórnar hérlendis á bandarísku vefsíðunni liveatc.net. Vefsíðan sérhæfir sig í að endurvarpa og gera upptökur af slíkum flugfjarskiptum víða um heim. Segir á síðunni að þetta sé gert til fróðleiks og gamans. Starfsemin byggir á framlagi sjálfboðaliða sem nota einfalda skannera til að nema fjarskiptin og veita þeim inn á netið.

Í apríl í fyrra sneri Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) sér til Póst- og fjarskiptastofnunar og vakti athygli á starfsemi liveatc.net hér á landi. P&S vísaði málinu til Samgöngustofu í maí. ÖFÍA sendi Samgöngustofu ítrekunarbréf viku fyrir síðustu jól. „Leynd flugfjarskipta“ var yfirskriftin.

„Þrátt fyrir að um afar viðkvæmar upplýsingar sé að ræða er varða flugöryggi hérlendis hefur SGS [Samgöngustofa] ekki gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir hlustun, upptöku, dreifingu og vistun umræddra gagna sem eru án nokkurra takmarkana og aðgengileg hverjum þeim er fletta upp framgreindri vefsíðu,“ sagði í bréfinu sem undirritað var af Steinþóri, formanni öryggisnefndarinnar.

Aðspurður vill Steinþór ekki svara því hvernig endurvörpunin á liveatc.net varði flugöryggi. „Allir sem eitthvað vita um flug, þeir náttúrulega skilja þetta mjög vel. Það er ekkert eðlilegt að upptökur af samtölum séu bara aðgengilegar á netinu,“ segir hann.

Í janúar á þessu ári varð úr að Póst- og fjarskiptastofnun fékk málið aftur til meðferðar. Stofnunin sendi liveatc.net bréf þann 26. janúar og benti á að fyrrgreind starfsemi síðunnar stangaðist á við íslensk lög líkt og eigi við um Bretland. Talsmaður liveatc.net sagðist mundu hlíta því en sagði hins vegar ákvörðun P&S misráðna því efnið á vefsíðunni hefði fræðslugildi fyrir bæði flugmenn og flugumferðarstjóra. Sagði hann enga hættu stafa af starfseminni.

„Þetta svar frá þeim um að þessi síða hafi eitthvert gildi fyrir flugmenn og flugumferðarstjóra stenst engan veginn,“ svaraði Steinþór þegar P&S bar undir hann tilsvör talsmanns liveatc.net.

Þótt liveatc.net sendi ekki lengur út flugfjarskipti hérlendis þá geta þeir sem eiga réttu tækin áfram hlustað á samskiptin. Livatc.net starfar í fjölmörgum öðrum löndum í öllum heimsálfum, meðal annars á öllum Norðurlöndunum, Rússlandi og Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×