Innlent

48 milljóna króna helgarferð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Nýr milljónamæringur kom á skrifstofu Íslenskrar getspár í Laugardalnum í dag en maðurinn, sem er fjölskyldufaðir af landsbyggðinni, hafði boðið konu sinni í rómantíska helgarferð til borgarinnar. Þar kíktu í Kringluna og komu við í Happahúsinu til að láta fara yfir gamla miða og til að kaupa sinn vikulega 10 raða sjálfsvalsmiða.

Það var hins vegar ekki fyrr en í gær sem hann fór með miðann úr rómantísku borgarferðinni á sölustað í heimabænum en þá kom í ljós að maðurinn hefði unnið 48,7 milljónir króna. Hann hélt reyndar fyrst að kassinn sem miðanum var rennt í gegnum væri að bilaður því hann gaf frá sér svo mikið hljóð en svo reyndist ekki vera.

Eftir samtal við verslunarstjórann ákvað vinningshafinn að taka fyrstu vél til Reykjavíkur og koma miðanum til Íslenskrar getspár. Í tilkynningu frá þeim segir að maðurinn hafi átt mjög erfitt með að lýsa þeirri tilfinningu að vera orðinn milljónamæringur: „Er þetta djók? Getur þetta verið? Er ég virkilega orðinn milljónamæringur?“

Vinningshafinn er mikill íþróttamaður og spilar alltaf með í Lottó. Nú ætlar að hreinsa upp lánin, vera slakur og halda áfram að spila Lottó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×