Innlent

Flugdólgur ógnaði fólki og reyndi að snuða leigubílstjóra

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Stefán
Lögreglan á Suðurnesjum handtók í fyrradag flugdólg. Sá hafði komið frá Boston og hafði hann látið ófriðlega í flugvélinni. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni var hann mjög ölvaður og hafði verið með ógnandi tilburði við flugáhöfn og farþega allt flugið.

Þá var maðurinn ósamvinnuþýður við lögreglu. Því var hann handtekinn og færður á lögreglustöð. Að yfirheyrslu lokinni var honum ekið aftur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem hann sagðist vilja halda ferð sinni áfram.

Lögreglan fékk þar að auki tilkynningu um að leigubílstjóri væri í vandræðum með farþega í gær. Hann hafði farið í leigubílnum um Reykjanesbæ og gekk hann ýmissa erinda samkvæmt lögreglu. Þegar ferðinni var lokið neitaði hann hins vegar að greiða. Þegar lögregluþjóna bar að garði kom í ljós að þar var flugdólgurinn frá því í fyrradag að verki.

Sátt náðist og greiddi dólgurinn upp í gjaldið með þeim peningum sem hann hafði handbæra. Ekki segir frekar af ferðasögu hans.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×