Innlent

Erlendar skuldir ekki lægri í fimmtíu ár

Sæunn Gísladóttir skrifar
Þorvarður Tjörvi Ólafsson.
Þorvarður Tjörvi Ólafsson. Vísir/GVA
Hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins voru þær lægstu í fimmtíu ár á síðasta ársfjórðungi 2015. Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur í Seðlabanka Íslands, fagnar stöðunni en segir mikilvægt að sýna áfram varfærni og aðhald. Staðan geti breyst ansi hratt, mikilvægt sé að efnahagsreikningurinn þoli þau áföll sem óhjákvæmilega muni skelli á.

Uppgjör slitabúanna er nú í reynd lokið og var hrein staða við útlönd neikvæð um 316 milljarða króna, í lok síðasta ársfjórðungs, eða sem nemur 14,4 prósentum af vergri landsframleiðslu. Nettóskuldir lækkuðu um 7.196 milljarða króna, eða sem nemur 328,6 prósentum af vergri landsframleiðslu á milli ársfjórðunga.

Spurningin er nú hvernig við förum með þetta tækifæri sem felst í því að skuldastaðan sé orðin svona hagstæð. Þorvarður Tjörvi segir að við höfum dæmi um hvað varast þarf - hvernig við fórum með þetta síðast. „Meira að segja áður en útrás bankanna fór á fullt, þá vorum við þegar búin tvöfalda erlendu skuldir okkar milli 1995 og 2002, í kjölfar síðustu losunar hafta," segir Tjörvi. 

„Nú er búið að gera ýmsar umbætur á hagstjórninni til að koma í veg fyrir að svona geti gerst aftur. Það er búið að setja verulegar takmarkanir á hvað bankarnir geta aukið erlendar skuldir sínar mikið, það eitt og sér gerir nú mikið, en það getur náttúrulega gerst að aðrir aðilar innan hagkerfisins fari að auka sínar erlendu skuldir óhóflega. Það getur krafist einhverra aðgerða."

„Við þurfum að halda áfram á þessari braut til að styrkja okkar stöðu og gera okkur í stakk búin til að takast á við þau áföll sem óhjákvæmilega munu skella á á næstu árum og áratugum," segir Þorvarður Tjörvi Ólafsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×