Innlent

Seltirningar segja skilið við gúmmíkurlið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Knattspyrnuiðkendur á Seltjarnarnesi fá völl sinn endurnýjaðan fyrir sumarið.
Knattspyrnuiðkendur á Seltjarnarnesi fá völl sinn endurnýjaðan fyrir sumarið.
Ákveðið hefur verið að fjarlægja allt gúmmíkurl úr dekkjum við íþróttasvæði Seltirninga, Vivaldi-vellinum. Verður allur völlurinn endurnýjaður við sama tækifæri. Þetta kemur fram á heimasíðu Seltjarnarnesbæjarar.

„Með þessu móti vill bæjarfélagið bregðast við þeirri umræðu sem verið hefur um mögulega skaðsemi kurlsins og skapa öruggt umhverfi fyrir íþróttaiðkendur á Seltjarnarnesi,“ segir í frétt á heimasíðu bæjarins. Reiknað er með því að framkvæmdir hefjist í apríl eða maí.

Umræða um dekkjakurlið hefur verið hávær undanfarin misseri og fyrir liggur að skipta á út kurlinu á öðrum völlum í Reykjavík á næstu árum.

„Við ætlum að taka það í burtu, fjarlægja það og endurnýja um leið gervigrasvöllinn, Vivaldi-völlinn,“ segir Soffía Karlsdóttir, sviðsstjóri menninga- og samskiptasviðs hjá Seltjarnarnesbæ.

Ákváðu að láta slag standa

„Þessi umræða um að það kunni að vera eiturefni í þessu kruli ýtti við okkur. Þess utan er kominn tími á völlinn. Við ákváðum að láta slag standa og gerum hvort tveggja í senn.“

Í stað svarta dekkjarkurlsins mun koma grátt gúmmí sem mun vera viðurkennt og samþykkt. Soffía segir málið enn eiga eftir að fara fyrir bæjarráð en hafi þegar verið samþykkt í íþrótta- og tómstundaráði bæjarins. Tilboð frá verktaka í verkið hljómi upp á 75 milljónir króna.

Soffía segir framkvæmdirnar ekki til komnar vegna þrýstings frá foreldrum.

„Nei í raun og veru ekki. Þessi heildarumræða ýtti bara við okkur og það að völlurinn sé kominn á tíma. Það er gott að geta sagt frá því að við ætlum út í þetta. Fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því að æfa í umhverfi sem gæti verið heilsuspillandi.“


Tengdar fréttir

Ung knatt­spyrnu­kona rekur öndunar­færa­sjúk­dóm til dekkjakurls

Ung knattspyrnukona í Fram telur að bein tengsl séu á milli öndunarfærasjúkdóms sem hún glímir við og þeirri staðreynd að hún hefur spilað undanfarin 5 ár á velli sem þakinn er heilsuspillandi dekkjakurli. Hér áður fyrr var hún alltaf með sterk og heilbrigð lungu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×