Innlent

Svartárvirkjun skal í umhverfismat

Svavar Hávarðsson skrifar
Svartá á upptök sín í Svartárvatni, í um 400 metra hæð yfir sjávarmáli, og rennur um 16 kílómetra leið þar til hún fellur í Skjálfandafljót.
Svartá á upptök sín í Svartárvatni, í um 400 metra hæð yfir sjávarmáli, og rennur um 16 kílómetra leið þar til hún fellur í Skjálfandafljót. Mynd/jaþ
Skipulagsstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að 9,8 megavatta virkjun í Svartá í Bárðardal kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun birti ákvörðun sína um matskyldu í gær, og tiltekur fjölmargt sem niðurstaða stofnunarinnar byggist á. Stærð og umfang framkvæmdarinnar, sem og staðsetning – eða vegna þess hversu viðkvæmt svæðið er með tilliti til verndarsvæða, ábyrgðartegunda og tegunda á válista, og svæða innan 100 metra fjarlægðar frá fornminjum sem njóta verndar. Eins með tilliti til álagsþols náttúrunnar; vatnsfalla, landslagsheilda og kjörlendis dýra. Að síðustu vegna óafturkræfra áhrifa á svæðið.

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá hafa fyrirætlanir SSB orku ehf., um virkjun Svartár í Bárðardal mætt harðri gagnrýni og tortryggni frá náttúruunnendum. Bent hefur verið á að með því að virkja Svartá sé náttúruperlu spillt sem á enga hliðstæðu hér á landi – en áformin hafi fengið hverfandi athygli þótt full ástæða sé til hins gagnstæða. Um sannkallaða hálendisvin sé að ræða sem muni bíða óafturkræft og óbætanlegt tjón af fyrirhuguðum framkvæmdum, enda verði Svartá tekin að mestu leyti úr farvegi sínum á rúmlega þriggja kílómetra kafla, nánast þurrkuð upp.

Ljóst er að mestu áhrif virkjunar Svartár samkvæmt áætlunum SSB orku eru á lífríki árinnar, en í Svartá er ráðandi stofn urriði en þar fyrirfinnst jafnframt lax og bleikja. Meðalveiði síðustu ára er talin rúmlega 1.100 urriðar. Sérstaklega er fjallað um þessa hagsmuni í úrskurði Skipulagsstofnunar með vísan í umsögn Fiskistofu um framkvæmdina. „Ekki liggur fyrir hvernig straumönd eða urriða muni reiða af þegar rennsli verður eingöngu um 5-10% af því náttúrulega rennsli sem fyrir er. […] Af þeirri óvissu leiðir jafnframt að óljóst er hvernig veiði mun reiða af í ánni,“ segir í úrskurðinum og jafnframt að þess vegna þurfi að koma fram nánari greining og mat á áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda á vatnalíf og um leið á útivist og veiði og á þeim mótvægisaðgerðum sem lagðar eru til.

Fiskistofa er reyndar enn afdráttar­lausari, og mótmælir því mati gagna sem SSB orka hefur lagt fram að umhverfisáhrif Svartárvirkjunar útheimti ekki mat á umhverfis­áhrifum. Tekur það reyndar fram sérstaklega að lindár, eins og Svartá, eru sjaldgæfar á heimsvísu. „Ef virkjun verður gerð í Svartá eins og áform eru um mun hún spilla fágætum búsvæðum lífvera á heimsvísu, skerða búsvæði fiska og þar með skerða möguleika á því að nýta veiðihlunnindi á svæðinu,“ segir í umsögn Fiskistofu þar sem jafnframt er minnt á að framkvæmdin eins og hún er hugsuð er háð leyfi Fiskistofu eins og kemur fram í lögum um lax- og silungsveiði.

Fiskistofa, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra og Umhverfisstofnun töldu að Svartárvirkjun skuli háð umhverfismati. Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit og Orkustofnun tóku ekki afstöðu til matsskyldu. Minjastofnun Íslands taldi ekki ástæðu til umhverfismats.



Svartá þveruð með 60 metra stíflu

  • Um er að ræða allt að 9,8 MW virkjun í Svartá í Bárðardal.
  • Reist verður 60 metra löng stífla í Svartá nokkru ofan við ármót Svartár og Grjótár.
  • Ofan við stífluna verður inntakslón allt að einn hektari að flatarmáli.
  • Frá lóninu verður lögð 3,1 kílómetra löng aðrennslispípa sem verður þrír metrar í þvermál.
  • Á hæð skammt ofan við stöðvar­hús verður reist jöfnunarþró, 220 fermetrar að grunnfleti og 16 metrar á hæð.
  • Stöðvarhús, 450 fermetrar, verður reist við Svartá um tvo kílómetra ofan við ármót Svartár og Skjálfandafljóts.
  • Frá virkjuninni verður lagður um 46 kílómetra langur jarðstrengur að tengivirki Landsnets við Laxárvirkjun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×