Innlent

Skoða að sækja bætur til Reykjavíkurborgar

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ellen segir dóminn fordæmisgefandi.
Ellen segir dóminn fordæmisgefandi.
„Við upplifum það oft að mannréttindi náist ekki fram nema í gegn um dómstóla,“ segir Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, en nýlega féll dómur Hæstaréttar í máli sem Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) rak fyrir konu gegn Reykjavíkurborg en henni hafði verið neitað um sérstakar húsaleigubætur vegna þess að hún leigir húsnæði af hússjóði ÖBÍ en ekki hjá Félagsbústöðum eða á almennum markaði.

Niðurstaðan var sú að borgin mætti ekki neita leigjendum Brynju – hússjóðs ÖBÍ um sérstakar húsaleigubætur. ÖBÍ skoðar nú að sækja frekari rétt til handa konunni fyrir dómstólum. „Svo vonum við auð­vitað að það verði fordæmisgefandi fyrir fleiri í sömu stöðu,“ segir Ellen en í fyrra leigðu um 460 einstaklingar hjá hússjóði ÖBÍ.

ÖBÍ hefur barist fyrir því í sjö ár að reglum borgarinnar um bæturnar verði breytt. Innanríkisráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu árið 2010 að reglurnar væru til þess fallnar að mismuna fólki og beindi þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að breyta reglunum. Ellen segir að Öryrkjabandalagið hafi reynt að ná samningi við Reykjavíkurborg en það ekki gengið.

Ellen segir dóm Hæstaréttar fordæmisgefandi og að sveitarfélög verði að breyta reglum sínum í samræmi við hann. Akureyrarbær sé annað dæmi um sveitarfélag sem hafi neitað fólki um bæturnar á sama grundvelli.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að nú vinni starfshópur að því að skýra reglurnar og muni niðurstaða hans líklegast liggja fyrir í haust. Dómurinn muni hafa áhrif sem og ný lög um húsnæðisbætur.

Þá segir Dagur ástæðu þess að ekki hafi náðst samkomulag við ÖBÍ á sínum tíma vera að borgarlögmaður hafi talið rétt að fá niðurstöðu dómstóla varðandi málið.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×