Innlent

Keppast um að draga úr koltvísýringi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Birna Guðmundsdóttir hefur unnið að skipulagningu keppninnar.
Birna Guðmundsdóttir hefur unnið að skipulagningu keppninnar.
Þann 1. apríl næstkomandi mun Íslenska CO2 keppnin hefjast. Um er að ræða keppni sem öllum íslenskum fyrirtækjum, stofnunum og bæjum býðst að taka þátt í með notkun á appi úr smiðju þýsk-íslenska fyrirtækisins Changers.

„Í kjölfar þess að Festa stóð fyrir því að yfir hundrað fyrirtæki skrifuðu undir yfirlýsingu um að setja sér markmið í loftlagsmálum höfðum við samband við Ketil Berg framkvæmdastjóra samtakanna og fengum að taka þátt sem einn valmöguleiki fyrirtækja til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum,“ segir Birna Guðmundsdóttir, sem hefur unnið hjá Changers síðan í haust og hefur unnið að skipulagningu keppnina og við markaðssetningu CO2 fit appsins á Norðurlandamarkaði.

Appið reiknar hvað notendur spara mikla koltvísýringslosun með því að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur í stað einkabílsins og verðlaunar þá með því að leyfa þeim að planta tré eða fá aðrar umbunir. Appið hefur notið mikilli vinsælda í Þýskaland. Á síðastliðnu ári hafa notendur þess sparað 881 tonni af koltvíoxíð og plantað 1.514 trjám í Þýskalandi.

„Keppnin varir í sex til tólf mánuði og er keppt um hvaða fyrirtæki nær mánaðarlega að draga mest úr koltvísýringslosun,“ segir Birna. „Til að verðlauna hina sjálfbæru hegðun plöntum við svo tré á Íslandi fyrir hverja hundrað kílómetra sem starfsmenn hjóla eða ganga, í samstarfi við samtökin Gróður fyrir fólk,“ segir Birna.



Þau fyrirtæki sem þegar hafa staðfest þátttöku sína eru meðal annars Alcoa og IKEA.

„Hugmyndir Changers miða að því að finna skemmtilega og jákvæða lausn á þeim vanda sem steðjar að okkur jarðarbúum hvað loftlagsbreytingar varðar. Með þátttöku í keppninni geta starfsmenn eflt heilsu sína og unnið gegn afleiðingum gróðurhúsaáhrifa. En á Íslandi er helsta áskorunin í loftslagsmálum mengandi samgöngur. Ef fyrirtæki og stjórnvöld ætla að ná markmiðum sínum í loftlagsmálum er eins gott að við hoppum á hjólin okkar núna og spænum upp vegi landsins,“ segir Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×