Innlent

Fatlað fólk fast heima yfir helgi ef tækin bila

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Dæmi eru um að fatlaðir sitji fastir er hjálpartækin bila.
Dæmi eru um að fatlaðir sitji fastir er hjálpartækin bila. vísir/Anton brink
„Það er algjörlega ólíðandi að fólk sé fast heima hjá sér og geti ekki hreyft sig vegna þess að tækin eru biluð,“ segir Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Engin þjónusta er veitt vegna hjálpartækja fatlaðra um helgar og eftir klukkan þrjú á virkum dögum. Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands annast þjónustu vegna tækjanna. Fatlað fólk hefur lent í því að tækin bili á föstudegi en enga þjónustu er að fá fyrr en á mánudegi.

Ellen segir að ekki sé hægt að líta á Hjálpartækjamiðstöðina sem hverja aðra ríkisstofnun heldur sé hún þjónustufyrirtæki sem verði að bjóða upp á þjónustu á öllum tímum. „Þarna verður að vera almennileg þjónusta, annars getur fólk ekki tekið þátt í lífinu.“

Hilmar Guðmundsson notar hjólastól en hann segir þjónustuna til skammar. Rafmagnsstóll hans bilaði fyrir mánuði og hefur verið í viðgerð síðan.

„Ég lenti í slysi og stóllinn bilaði. Ég á lítinn hjólastól heim og hef lítið getað gert nema setið heima,“ segir Hilmar en þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann lendir illa í því.

Ellen Calmon
„Ég var inni á baði á föstudegi í vetur og stóllinn bilaði. Hefði ég verið einn hefði ég bara setið fastur en konan mín var heima. Það var búið að loka verkstæðinu en við vorum einmitt á leið út það kvöldið. Ég komst ekki út alla þá helgi.“

Rúnar Björn Herrera þekkir vandamálið. Hann er með háls­mænuskaða og notar hjólastól.

„Það hefur gerst í nokkur skipti að það springur á dekki á stólnum mínum. Stundum næ ég að redda mér einhvern veginn en stundum ekki og þá hef ég keyrt um á sprungnu dekki eða ekki komist neitt,“ segir Rúnar og bætir við að oft komist fólk ekki með tækið á þeim stutta tíma sem opið er enda sé það á vinnutíma.

Í svari frá Sjúkratryggingum Íslands segir að fyrirhugaðar séu breytingar á þjónustunni en sagt verði frá þeim síðar. Í ár hafi hins vegar verið ákveðið að þrengja ekki opnunartíma eins og í fyrrasumar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. júlí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×