Innlent

Bílaeigendur verða að skipta nagladekkjunum út í dag

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Það hefur verið óheimilt að keyra um á negldum dekkjum síðan í apríl.
Það hefur verið óheimilt að keyra um á negldum dekkjum síðan í apríl. Vísir/Róbert
Í dag er síðasti dagurinn til að taka nagladekkin undan bílum á suðvesturhorni landsins. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu byrjar í fyrramálið að sekta alla sem eru á nelgdum dekkjum.

Leyfilegt er að aka á nagladekkjum frá 1. nóvember til 15. apríl. Lögreglan gerir jafnan ekki athugsemdir við að fólk aki á nelgdum dekkjum á meðan að færð kallar á slík dekk. Á suðvesturhorni landsins hefur nú verið sannkallað vorveður undanfarna daga og lögreglan telur því tímabært að skipta nagladekkjunum út. Hún byrjar í fyrramáli að sekta þá sem aka um á nelgdum dekkjum. Sverrir Guðfinnsson er varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Lögin eru nú þannig að ef að færðin býður ekki annað þá er heimilt að vera á nagladekkjum en núna er færðin bara orðin góð og það er búið að taka ákvörðun um að byrja á morgun,“ segir Sverrir.

Lögreglan á Suðurlandi ætlar einnig að byrja að sekta á ökumenn á morgun vegna nagladekkja. Sverrir segir alltaf einhverja enn á nagladekkjum á þessum árstíma.

„Fyrir einhverjum árum þá vorum við að grípa fleiri eftir að við byrjuðum að sekta en síðust ár hefur þeim farið fækkandi. Almenn nagladekkjanotkun er að minnka, allavega á höfuðborgarsvæðinu, þá fækkar og fækkar bílum sem eru á nöglum. Fólk er á ónelgdum vetrardekkjum eða á heilsársdekkjum,“ segir Sverrir.

Þeir sem verða gripnir á nagladekkjum á morgun eiga von á sekt. „Það eru fimm þúsund krónur á dekk svo þetta fer bara eftir dekkjafjölda,“ segir Sverrir Guðfinnsson.
 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×