Innlent

Glænýjar íslenskar kartöflur á leið í verslanir

Gissur Sigurðsson skrifar
Í hugum margra er sumarið komið fyrir alvöru þegar fyrstu íslensku kartöflurnar koma á markað.
Í hugum margra er sumarið komið fyrir alvöru þegar fyrstu íslensku kartöflurnar koma á markað. vísir
Verið er að flytja fyrsta farm af nýjum íslenskum kartöflum frá Hornafirði til Reykjavíkur þars em þær verða fáanlegar í nokkrum verslunum. Aðeins vika er í að gullauga komi á markað.

Í hugum margra er sumarið komið fyrir alvöru þegar fyrstu íslensku kartöflurnar koma á markað, en þær eru á leið í bæinn frá Hjalta Egilssyni á Seljavöllum í Hornafirði.

„Uppskeran lítur bara þokkalega út. Þetta eru sæmilegar kartöflur orðnar, allt í lagi að taka þær upp svona fyrir sumarmarkað. Þetta er premier tegund sem er svona viku á undan þessum hefðbundnu afbriðgum eins og gullauganu, sem er í raun betri sumarkartafla,” segir Hjalti og bætir við að uppskeran sé nokkuð snemma á ferðinni í ár.

„Ég hef aldrei byrjað svona snemma að taka upp á markað fyrr. Þannig að þetta er til dæmis um hálfum mánuði fyrr en í fyrra. Það var reyndar frekar kalt ár þá.”

Hverju þakkarðu þetta?

Það er fyrst og fremst veðráttan er búin að vera hagstæð. Alveg frá því í vor. Það hafa ekki komið nein bakföll í veðráttuna og það var klakalaus jörð og við gátum sett niður snemma. Þetta hefur verið ágætis tíðarfar fyrir kartöflur,” segir Hjalti.

Hann segist búast við góðri kartöflusprettu um allt land. „Ég býst alveg við því að það hljóti að fara að koma kartöflur víðar af á landinu.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×