Innlent

Vilja rafræna kosningu um iðnaðarstarfsemi í Krýsuvík

Sæunn Gísladóttir skrifar
Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.
Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Mynd/Sigtryggur Ari
Fulltrúar minnihlutans í Hafnarfjarðarbæ vilja láta fara fram rafræna íbúakosningu um fyrirliggjandi hugmyndir um raforkuframleiðslu og tengda iðnaðarstarfsemi í Krýsuvík. Bæjarráð hefur hins vegar vísað efni tillögunnar til starfshóps um framtíðarnotkun Krísuvíkursvæðisins.

„Það má öllum vera orðið það ljóst að meirihlutinn er klofinn í þessu máli og tilgangur þessa starfshóps augljóslega bara sá að halda almenningi frá málinu. Það teljum við óeðlilegt og ólýðræðislegt,“ segir Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Í fundargerð bæjarstjórnar kemur fram að fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna telji kosningarnar eðlilegt og rökrétt framhald af þeirri vinnu sem fram fór á síðasta kjörtímabili þar sem mörkuð var og samþykkt umhverfis- og auðlindastefna fyrir sveitarfélagið.

„Eðlilegra væri að nýta tímann til að kynna málið fyrir almenningi, stuðla að upplýstri umræðu og leyfa bæjarbúum sjálfum að koma beint að ákvörðuninni. Þess vegna lögðum við til að boði innanríkisráðuneytisins um þátttöku í tilraunaverkefni um rafrænar íbúakosningar yrði tekið fagnandi og við nýttum tækifærið til að kanna hug bæjarbúa til málsins,“ segir Gunnar Axel Axelsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×