Innlent

Áskorun að hagræða án skertrar þjónustu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Velferðarsvið hefur beint sjónum að börnum og unglingum og vaxandi kvíða í aldurshópnum.
Velferðarsvið hefur beint sjónum að börnum og unglingum og vaxandi kvíða í aldurshópnum. NordicPhotos/Getty
Velferðarmál Í nýrri ársskýrslu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar kemur fram í ávarpi Stefáns Eiríkssonar, sviðsstjóra, að samfélagslegar breytingar vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar feli í sér tækifæri en sömuleiðis áskoranir.

„Yfir þessa stöðu þurfum við að fara, við þurfum að fjárfesta í enn meira mæli í nýsköpun og velta fyrir okkur hvernig við mætum þeim verkefnum sem framundan eru innan þess fjárhagsramma sem ætlaður er til velferðarmála bæði hjá ríki og sveitarfélögum,“ skrifar hann í ávarpinu.

Í yfirferð yfir árið 2015 segir Stefán rekstur sveitarfélaga hafa verið þungan undanfarin misseri og því hafi þurft að hagræða.

Stefán Eiríksson sviðsstjóri velferðarsviðs Fréttablaðið/Valli
„Það er viðvarandi áskorun að mæta þeirri hagræðingarkröfu án þess að það hafi áhrif á beina þjónustu við notendur.“

Frá árinu 2011 hafa árleg útgjöld sviðsins þó hækkað um tæpa sjö og hálfa milljón króna. Launakostnaður vegna kjarasamninga og ýmis átaksverkefni skýra að einhverju leyti þá hækkun. Stærstu kostnaðarliðirnir eru búsetuúrræði, húsaleigubætur, skrifstofurekstur sviðsins, fjárhagsaðstoð og heimaþjónusta.

Áhersla var lögð á börn og ungmenni á síðasta ári og segir Stefán góðan árangur hafa náðst í forvarnarstarfi, svo eftir sé tekið á alþjóðlegum vettvangi. Til að mynda var skimað fyrir þunglyndi og kvíða hjá öllum unglingum í 9. bekk í reykvískum skólum og sáust merki um aukinn kvíða sem Stefán telur mikilvægt að takast á við með samstilltum hætti.

„Ný samskiptatækni og samfélagsmiðlar hafa margar jákvæðar hliðar en þær neikvæðu eru einnig til staðar sem mikilvægt er að horfa til í þeim efnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×