Innlent

Yfir 3000 beinagrindur grafnar upp í London

Hrund Þórsdóttir skrifar
Breskir fornleifafræðingar keppa nú við tímann og reyna á einum mánuði að grafa upp yfir þrjú þúsund beinagrindur úr gömlum kirkjugarði, á reit þar sem byggja á nýja jarðlestastöð.

Beinagrindurnar eru af fólki sem lést meðal annars úr svartadauða á sextándu og sautjándu öld og geta gefið mikilvæga vitneskju um þróun sjúkdómsins og sögu borgarinnar. Þær fundust vegna vinnu við nýja jarðlestastöð í miðborg Lundúna og þar sem framkvæmdir hefjast aftur í næsta mánuði þurfa fornleifafræðingar að hafa hraðar hendur við uppgröft og skrásetningu. Um fjórðungur borgarbúa fórst úr drepsóttinni á sínum tíma og liggja margar beinagrindur í hverri gröf.

„Það var í raun ekkert rými eftir til greftrunar eftir nokkrar hræðilegar drepsóttir og auðvitað gríðarlega aukningu á íbúafjölda borgarinnar á sautjándu og átjándu öld,“ segir fornleifafræðingurinn Jay Carver, sem stýrir uppgreftrinum. Verkefnið, sem komið er skammt á veg, skilar þó ekki bara beinagrindum heldur ýmsum munum, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði og vonast er til þess að minjar um líf frá rómverska tímanum komi í ljós við uppgröftinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×