Innlent

Hundruðir virkjana en áhrifin ókönnuð

Svavar Hávarðsson skrifar
Mynd/Magnús Jóhannsson
Umhverfisáhrif smárra vatnsaflsvirkjana á Íslandi eru lítt rannsökuð, og sérstaklega áhrif á lífríkið. Margar þeirra ekki tilkynningarskyldar til þar til bærra yfirvalda. Þó liggur fyrir að áhrif þeirra eru umtalsverð og nauðsynlegt að bæta alla umgjörð er þær varðar.

Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar Veiðimálastofnunar á smávirkjunum og áhrifum þeirra á lífríki í vatni, en það eru þau Halla Margrét Jóhannesdóttir, líf- og umhverfisfræðingur, og Magnús Jóhannsson, fiskifræðingur, sem stóðu að rannsókninni.

Halla Margrét segir að áhrif vatnsaflsvirkjana á vatnalíf sé vel þekkt. Nefnir hún breytingar á samsetningu fiskstofna, breytingar á búsvæðum og vatnsgæðum sem og skerðingu á hrygningar- og uppeldissvæðum, rennslisháttum og samfellu áa.

„Þetta getur verið í sumum tilfellum góður kostur, en það fer eftir lífríkinu. En þetta er bara aldrei skoðað. Það eru fyrirtæki og verkfræðistofur sem fara til mælinga og þá á hagkvæmninni og verið er að veita aðstoð við fjármögnun og uppsetningu virkjana. En nær aldrei er hugað að lífríkinu,“ segir Halla Margrét og bætir við að sérstaklega eigi þetta við um minnstu virkjanirnar sem eru ekki tilkynningaskyldar og mönnum beri ekki að tilkynna neitt um hvað stendur til.

Halla Margrét og Magnús velta upp þeirri spurningu hvort ekki sé þörf á að öll áform um virkjanir séu tilkynningaskyld og fyrir því eru nokkrar ástæður. „Í litlum ám og vötnum geta verið mjög mikilvæg svæði; hrygningarsvæði og búsvæði fyrir fiskistofna. Í ljósi þess að verið er að hvetja menn til þess að skoða þennan kost þá viljum við benda á að svona framkvæmdir eru ekki vistvænar í öllum tilfellum og full ástæða til að gaumgæfa þessi mál betur.“

Þau skrifa jafnframt: „Er æskilegra að dreifa umhverfisáhrifum vatnsaflsvirkjana á mörg svæði eða að þau séu á færri svæðum og um leið meiri á hverju þeirra um sig,“ en innan virkjanageirans eru uppi mismunandi skoðanir um hvort sé umhverfisvænna að þróa margar litlar virkjanir eða fáar stórar.

Samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins og evrópskum samtökum um smávirkjanir (ESHA) flokkast virkjanir sem hafa uppsett afl undir 10MW sem smávirkjanir. Gagnagrunnur Orkustofnunar geymir upplýsingar um tæplega 600 smávirkjanir sem hafa verið byggðar á árunum 1904 til 2014. Margar þeirra hafa verið lagðar niður en árið 2014 voru rétt um 250 smávirkjanir í rekstri. Tæpur helmingur þeirra er 60 ára eða eldri.

Á árunum 2000 til 2014 voru byggðar um 40 smávirkjanir. Samanlagt vatnsafl þessara virkjana er um 75 MW en samanlagt uppsett afl vatnsaflsvirkjana á Íslandi eru um 1.950 MW. Því eru smávirkjanir með um 3,8% af uppsettu vatnsafli á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×