Innlent

Leita skýringa á því af hverju refastofn hrundi

Svavar Hávarðsson skrifar
Fjölmörg hræ fundust á Hornströndum sem er mjög sjaldgæft.
Fjölmörg hræ fundust á Hornströndum sem er mjög sjaldgæft. Mynd/Vilhelm
Refastofninn á Hornströndum hrundi niður sumarið 2014 og er ástand hans svipað og það var á áttunda áratug síðustu aldar þegar hann var í lágmarki. Ástæðurnar eru óljósar en greinilegt að refastofninn á Hornströndum er ekki eins stöðugur og áður hefur verið talið.

Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, fjallaði nýlega á Hrafnaþingi NÍ um rannsóknir á refastofninum á Hornströndum. Ester lýsti því að öll árin sem hún hefur stundað rannsóknir á Hornströndum hefur stöðugleiki verið einkennandi fyrir svæðið; bæði í fjölda dýra og afkomu.

Í byrjun síðasta sumars virtist allt með felldu. Í júlí og ágúst var hins vegar ljóst að got hafði misfarist hjá mörgum pörum sem hafði aldrei gerst frá því að rannsóknir hófust. Á litlu svæði í Hornvík fann Ester tíu hræ, og vitað var um fleiri annars staðar á svæðinu.

„Þetta var mjög sláandi,“ sagði Ester sem fór í gegnum gamlar veiðiskýrslur til að leita heimilda um eitthvað svipað. Þær fann hún ekki, nema á einum stað þar sem veiðimaður undirstrikaði í undrun sinni að hafa fundið hræ yfirleitt. Ester bætti við að þau tíu hræ sem hún fann gefi til kynna að þau hafi verið mun fleiri, en veiðiskýrslur benda þó til þess að sveiflur hafi verið í stofninum fyrr á árum.

En hverjar er skýringarnar? Íslenski stofninn virðist sveiflast með náttúrulegum hætti á löngum tíma, sagði Ester sem veiðitölur virðast sýna. Frjósemi refs er stöðug, og skýrir þetta ekki.

Mikið sjófuglavarp er á Hornströndum. Ein hugsanleg skýring sem vísindamenn vinna með er að veðurlag síðla vetrar og vorhret gætu hafa haft neikvæð áhrif á varpárangur fugla og þar með óbein áhrif á tímgunarárangur refa.

Fundist hefur hátt magn kvikasilfurs í tófum við ströndina á Íslandi. Verið gæti að mengun sé meiri á þessu svæði en annars staðar þar sem uppistaða fæðunnar eru sjófuglar og sjórekin spendýr, og ekki er hægt að útiloka sjúkdóma. Þá bendir margt til þess að ágangur ferðamanna hafi neikvæð áhrif á afkomu yrðlinga á svæðinu, og matargjafir hafi skekkt afkomumöguleika dýranna á milli árstíða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×