Innlent

Sakfelldur fyrir fíkniefnasölu á síðunni „Meistari Kush“

Bjarki Ármannsson skrifar
Maðurinn seldi fíkniefni á Facebook-síðunni „Meistari Kush“ ásamt félaga sínum.
Maðurinn seldi fíkniefni á Facebook-síðunni „Meistari Kush“ ásamt félaga sínum. Vísir/Valli
Maður á þrítugsaldri var í dag sviptur ökuréttindum ævilangt og dæmdur í sjö mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot. Maðurinn seldi fíkniefni á Facebook-síðunni „Meistari Kush“ ásamt félaga sínum og var tvisvar staðinn að því að keyra bíl sviptur ökuleyfi.

Fíkniefni og reiðufé fundust við húsleit

Samkvæmt skýrslu lögreglu fór lögregla að húsi mannsins í Reykjavík þann 4. mars 2014 vegna ábendinga um að margir hefðu lagt leið sína þangað undanfarinn sólarhring. Talið var að sala fíkniefna færi fram á staðnum. Í skýrslunni greinir frá því að þegar lögregluþjónar komu inn á stigagang hússins hafi heyrst mikið rifrildi úr íbúð mannsins, þannig að skilja mætti að átök ættu sér stað, og þeir því farið inn í íbúðina.

Maðurinn var ásamt sambýliskonu sinni í íbúðinni og heimilaði leit lögreglu. Við þá leit fannst efni sem reyndist vera amfetamín, hass, kókaín og marijúana. Einnig fundust samtals rúmlega níu hundruð þúsund krónur í reiðufé víðsvegar um íbúðina ásamt tveimur farsímum, sem grunur lék á að notaðir væru við sölu fíkniefna.

Í skýrslunni segir að lögregla hafi einnig fundið leigusamning um bílskúr annars staðar í borginni. Maðurinn hafi í fyrstu ekki viljað kannast við leigu sína á skúrnum en hafi gengist við henni eftir að lögregla tjáði honum að hún myndi kanna það hvort lyklar í hans fórum gengju að skúrnum. Eftir leit í íbúðinni fór lögregla að bílskúrnum og fann þar mikið magn marijúana.

Myndefni samsvaraði því á síðu „Meistara Kush“

Farsímanúmerin tvö voru sett í hlustun en þau komu bæði fram á Facebook-aðgangi „Meistara Kush“ þar sem fíkniefni voru auglýst til sölu. Maðurinn var svo handtekinn þann 8. apríl eftir að hlustun númeranna leiddi í ljós að hann ætlaði að hitta tvo kaupendur við bensínstöð Olís við Skúlagötu.

Gripið var inn í söluferlið en maðurinn hljóp yfir Sæbraut þegar hann varð var við lögreglu og henti í sjóinn fíkniefnum, en eitthvað af þeim fannst. Þá fundust ætluð fíkniefni á honum. Farið var með manninn að heimili hans þar sem meira fannst af fíkniefnum og rúmlega 250 þúsund krónur í reiðufé.

Við leitina fundust einnig í tölvu mannsins myndir og myndskeið sem samsvaraði þeim sem voru inni á síðu „Meistara Kush.“ Á einu myndskeiðinu mátti jafnframt sjá hönd með fæðingarbletti sem kom heim og saman við blett á hönd mannsins handleika fíkniefni.

Í niðurstöðum dómara kemur fram að maðurinn á að baki sakaferil frá árinu 2004 en á þeim tíma hefur hann níu sinnum hlotið dóm. Hann var svo í dag dæmdur til þess að sæta fangelsi í sjö mánuði, sviptur ökuréttindum ævilangt og til að greiða rúmlega 879 þúsund krónur í sakarkostnað. Fíkniefni sem haldlögð voru við rannsókn málsins voru gerð upptæk til ríkissjóðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×