Innlent

Bolvíkingar bregðast við bankaflutningi: Vilja þjónustumiðstöð í húsnæðið við Aðalstræti

Bjarki Ármannsson skrifar
Bæjarráð Bolungarvíkur hefur samþykkt áætlun um að bjóða Landsbankanum, Íslandspósti og sýslumanni Vestfjarða samstarf.
Bæjarráð Bolungarvíkur hefur samþykkt áætlun um að bjóða Landsbankanum, Íslandspósti og sýslumanni Vestfjarða samstarf. Vísir/Pjetur
Bæjarráð Bolungarvíkur samþykkti á fundi sínum í kvöld áætlun um að koma upp þjónustumiðstöð í núverandi húsnæði Landsbankans, sem hyggst loka útibúi sínu þar í bæ. Bæjarstjóra er samkvæmt áætluninni falið að hafa samband við Landsbankann, Íslandspóst og sýslumanninn á Vestfjörðum og óska eftir viðræðum um hugsanlegt samstarf í húsnæðinu.

Húsnæði Landsbankans í Bolungarvík er nú á jarðhæð hússins við Aðalstræti 12 en á efri hæð sama húss eru bæjarskrifstofur Bolungarvíkur og starfsemi á vegum sýslumannsins. Samkvæmt áætluninni verða möguleikar kannaðir á „makaskiptum“ við Landsbankann þannig að bærinn myndi flytja skrifstofur sínar á jarðhæðina. Þar yrði starfrækt þjónustumiðstöð í samstarfi við ofangreinda aðila.

Til stendur að bjóða Landsbankanum að starfa áfram í miðstöðinni og bjóða upp á gjaldkera- og hraðbankaþjónustu auk þjónustu þjónustufulltrúa bankans. Í samþykkt bæjarráðs segir að þjónustu bankans yrði þróuð áfram í sjálfvirkni og sjálfsafgreiðslu þannig að fullrar hagkvæmni væri gætt.

Á efri hæð hússins, þar sem bæjarskrifstofurnar eru nú, kæmi ný starfsemi af einhverjum toga. Í samþykkt bæjarráðs segir að þar verði sérstaklega horft til þess að fá starfsemi á vegum ríkisins í húsið, enda hafi Bolvíkingar „þegar lagt mörg lóð á vogarskálarnar í hagræðingu hjá ríkinu með flutningi starfa úr bæjarfélaginu og eðlilegt að gerð sé krafa um að eitthvað komi þar í staðinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×