Hún kom til landsins um helgina með lúxusskipinu Disney Magic þar sem hún hefur samið tónlist, leikstýrt, sungið og spilað í eigin sýningu The Greta Salóme show um nokkra mánaða skeið og troðið upp með eigið efni fyrir mörg þúsund manns í hverri viku. Skipið hefur tvisvar komið til landsins og er nú á leið til Akureyrar.
Tónlistarkonan var á síðasta ári á siglingu í fjóra mánuði með skemmtiferðaskipinu Disney Dream, sem er eitt stærsta skemmtiferðarskip samsteypunar og fékk í framhaldinu svokallaðan ,,headliner” samning um borð í Disney Magic.
Hún er með eigið stúdíó um borð þar sem hún semur alla tónlistina fyrir sýninguna og fyrir nýja plötu sem hún hefur verið að vinna að. Hún hefur til aðstoðar fyrir sýninguna leikstjóra, dansara, búningahönnuði frá Disney. Platan hennar „In the Silence” sem seld er um borð hefur einnig selst upp fjórum sinnum.

Disney-Frozen á Hofi
„Ég kem heim í haust til þess að setja upp sýningu í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri en ég ætla ásamt Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni, tónlistarstjóra Menningarfélags Norðurlands að setja upp glæsilega tónlistarsýningu í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri.
Þar ætla ég að leika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á tónleikum sem nefnast Disney-Frozen. Ég er mjög spennt fyrir því verkefni,” segir Greta Salóme.
Hlakka til að koma heim
Eins og alla sjómenn sem verið hafa lengi úti þá hlakkar Greta til þess að koma heim og eyða meiri tíma með fjölskyldunni. ,,Það reynir á að vera fjarri fjölskyldunni svona lengi og ég hlakka óskaplega mikið til þess að koma heim og takast á við næstu verkefni, “ segir Greta Salóme að lokum.