Innlent

Hæstiréttur metur verðtryggðan lánasamning sanngjarnan

Birgir Olgeirsson skrifar
Einar Páll Tamimi (t.v.) ásamt Gunnari V. Engilbertssyni í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Einar Páll Tamimi (t.v.) ásamt Gunnari V. Engilbertssyni í Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir/GVA
Hæstiréttur Íslands hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Gunnars V. Engilbertssonar gegn Íslandsbanka þar sem deilt var um lögmæti verðtryggingarinnar. Málið snerist um fjögurra milljóna króna verðtryggt fasteignaveðlán sem Gunnar tók árið 2007. Sýslumaður gerði fjárnám í heimili Gunnars vegna lánsins en Gunnar hafði krafist þess að fjárnámið yrði afturkallað vegna þess að hann taldi verðtrygginguna ólögmæta.

Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um fjárnám í húsnæði og hefur Hæstiréttur nú staðfest það.

Leitað hafði verið til EFTA-dómstólsins um ráðgefandi álit í málinu og var álit dómsins birt í lok ágúst í fyrra. Þar kom fram að tilskipun Evrópusambandsins um óréttmæta skilmála í neytendasamningnum leggi ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu veðlána í samningum milli veitenda og neytenda. EFTA dómstóllinn sagði það vera íslenskra dómstóla að taka afstöðu til þess hvort lánasamningurinn sé sanngjarn.

Hæstiréttur sagði það koma til álita við úrlausn deilunnar hvort Íslandsbanki hefði látið hjá liða að veita Gunnari upplýsingar um efni og áhrif skilmála um verðtrygginguna í þeim mæli að það yrði talið ósanngjarnt af Íslandsbanka eða andstætt góðri viðskiptavenju.

Með hliðsjón af þeirri greiðsluáætlun sem Gunnar undirritaði samhliða skuldabréfinu og yfirliti sem fylgdi henni, taldi Hæstiréttur að upplýsingaskyldu hefði verið fullnægt sem á honum hvíldi samkvæmt þágildandi lögum um neytendalán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×