Innlent

Útboðsreglur brotnar í Sorpustöð á Álfsnesi

Sveinn Arnarson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Bygging jarðgerðarstöðvar á Álfsnesi yrði stórt skref í vinnslu sorps á höfuðborgarsvæðinu.
Bygging jarðgerðarstöðvar á Álfsnesi yrði stórt skref í vinnslu sorps á höfuðborgarsvæðinu. Fréttablaðið/Valgarður
„Menn verða að vinna svona hluti á gagnsæjan hátt,“ segir Jón Þórir Franzson, framkvæmdastjóri Íslenska gámafélagsins, um úrskurð kærunefndar útboðsmála þess efnis að Sorpa bs. geti ekki skrifað undir samning við Aikan A/S um tæknilausnir og tæknilega ráðgjöf við uppbyggingu gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi nema að undangengnu útboði.

Íslenska gámafélagið og Metanorka kærðu fyrirhugaða samningsgerð Sorpu til kærunefndar útboðsmála síðastliðið haust.

Kröfur kærenda voru þær að kærunefnd útboðsmála úrskurðaði á þá leið að Sorpu yrði gert að auglýsa útboð um tæknilausnir á EES-svæðinu. Í kjölfarið stöðvaði kærunefnd útboðsmála fyrirhugaða samningsgerð á meðan nefndin ynni að úrskurði.

Jón Þórir segir úrskurð kærunefndarinnar vandaðan og að hann byggi á ítarlegri rannsókn nefndarinnar. „Nefndin telur að Sorpa þurfi að opna útboðsferlið aftur og bjóða út verkið. Við viljum taka þátt í því útboði og erum mjög spennt fyrir því,“ segir hann. „Við vonumst til að Sorpa standi við það en fari ekki að þráast við þetta aftur.“

Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, vill ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Áður hafði Sorpa talið sig geta samið beint, án útboðs, við Aikan um notkun tæknilausna og ráðgjafar við uppbyggingu stöðvarinnar. Rök forsvarsmanna Sorpu voru á þá leið að aðeins einn bjóðandi kæmi til greina af tæknilegum ástæðum.

Stjórn Sorpu samþykkti á fundi sínum 12. maí í fyrra að gengið yrði til samninga við Aikan á þessum grundvelli. Samkvæmt fundargerð þess fundar hafði stjórn Sorpu fengið ráðgjöf frá innkaupadeild Reykjavíkurborgar.

Bygging gas- og jarðgerðarstöðvarinnar í Álfsnesi er viðamikið skref í umhverfismálum á höfuðborgarsvæðinu og er í samræmi við stefnu sem sveitarfélögin hafa mótað. Eftir að stöðin hefur starfsemi verður allur úrgangur sem safnað er frá heimilum á svæði Sorpu unninn í stöðinni. Lífrænu efnin verða nýtt til gas- og jarðgerðar, en málmar og önnur ólífræn efni verða flokkuð frá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×