Innlent

Vara við sprengingum á Grettisgötu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Húsin sem voru flutt af Grettisgötu 17 og Laugavegi 36 í febrúar til að rýma fyrir hótelbyggingu sem síðan var samþykkt í skipulagsráði á miðvikudag.
Húsin sem voru flutt af Grettisgötu 17 og Laugavegi 36 í febrúar til að rýma fyrir hótelbyggingu sem síðan var samþykkt í skipulagsráði á miðvikudag. Fréttablaðið/Valli
Hjónin Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson óttast skemmdir á húsi sínu ef leyft verður að sprengja fyrir grunnum húsa sem til stendur að flytja á Grettisgötu 9a og 9b.

Í athugasemd sem Tinna og Egill senda borginni segir að í bakhúsi við timburhús þeirra á Grettisgötu 8 séu hleðslur úr holsteini sem standi á klöpp.

„Þær eru ekki með styrktarjárnum eins og tíðkast með flesta steinveggi sem byggðir eru á síðari tímum,“ segja Egill og Tinna. Ef leyfðar verði sprengingar handan götunnar geti þær haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Kynni mögulegar bótakröfur

„Okkur þykir ekki óeðlilegt að gagnvart eignum sem hér eru fyrir, gömlum og viðkvæmum byggingum, verði sprengingar vegna framkvæmda við lóðirnar 9A og 9B ekki leyfðar. Verði ekki hjá þeim komist, óskum við eftir faglegri úttekt á ástandi steinhleðslnanna, fyrir og eftir framkvæmdir og að borgaryfirvöldum sem og væntanlegum seljendum lóðanna verði gerð grein fyrir mögulegum bótakröfum sem gætu skapast af áðurnefndu raski,“ segja hjónin á Grettisgötu.

Egill Ólafsson og Tinna Gunnlaugsdóttir hafa búið gegnt Grettisgötu 9 í 35 ár. Þau segja sprengingar handan götunnar geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.Fréttablaðið/Anton
Eigendur Laugavegsmegin miður sín

„Við undirritaðir eigendur að Laugavegi 28a höfum skiljanlega töluvert við þessa tillögu að athuga og vorum satt að segja alveg miður okkar þegar við heyrðum af henni fyrst,“ segir í athugasemd. „Ekki þarf sérstaklega glögga menn til að sjá að verði af þessum framkvæmdum mun það rýra verðgildi fasteignar verulega, að fá svo há hús beint suður af okkar húsi.“

Eigendur Laugavegar 28 segja að þótt þeir fagni þéttingu byggðar horfi það öðruvísi við ef það sé í túnfætinum hjá þeim sjálfum. „En við höfum samt sem áður ákveðið að í stað þess að vera með leiðindi, að nota tækifærið,“ segja þeir, „og sækjum hér með um leyfi til að hækka húsið okkar.“

Íbúasamtök fagna

Þar sem gert sé ráð fyrir verulegri fækkun bílastæða segjast Íbúasamtök miðborgar Reykjavíkur minna á nauðsyn mótvægisaðgerða „og leggja til að opnað verði fyrir almenna notkun íbúakorta að bílastæðahúsum Bílastæðasjóðs“.

Stjórn samtakanna lýsir ánægju með breytta götumynd Grettisgötu með flutningi tveggja eldri timburhúsa á lóðirnar tvær sem nú séu nýttar fyrir bílastæði.

Í Fréttablaðinu á miðvikudag sagði frá því að athugasemdir sem bárust í málinu fengjust ekki afhentar hjá borginni. Þær bárust þó eftir að fréttin birtist. Var sagt að um mistök hefði verið að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×