Skoðun

Ég tek ekki þátt í þessu

Sigurveig Sigurjónsdóttir Mýrdal skrifar
Óróleiki um kaup og kjör lýsir ekki því sem er að gerast í heilbrigðiskerfinu.

Ég er hjúkrunarfræðingur með meistaranám í siðfræði. Ég hef alla tíð unnið á Landspítala og haft unun af. Í starfi á ég samvinnu við einstaklinga og fjölskyldur sem eru að takast á við alls konar, margþætt og flókin heilsufarsleg og félagsleg viðfangsefni. Þegar ég mæti fólki á sjúkrahúsinu er það jafnvel á erfiðasta tímanum í lífi þess. Ég hef það hlutverk að veita alltaf gæða geðhjúkrun, hvernig svo sem birtingarmynd veikinda þeirra er. Allar manneskjur hafa nefnilega jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu.

Sem meðferðaraðila ber mér umfram allt að hafa hagsmuni skjólstæðinga minna að leiðarljósi. Mér ber að byggja störf mín á þekkingargrunni og viðhalda þekkingu minni. Ég ber virðingu fyrir þeim sem ég þjónusta. Ég veit að það að mynda gott meðferðarsamband við skjólstæðing skiptir meira máli en nákvæmlega hvaða meðferð er veitt. Ég þarf líka að huga að eigin líðan, því ég sjálf er vinnutækið mitt. Ég er auðmjúk fyrir því að geta gert mistök. Ég hef trú á skjólstæðingum mínum og því að líðan þeirra og heilsa geti batnað. Bjartsýni er smitandi og eykur batahorfur. Það sem ég geri í vinnunni er ekki úr lausu lofti gripið.

Ég er ein af þeim sem hverfa frá starfi í haust. Það er tap fyrir Landspítala sem hefur lagt mikið í að þjálfa mig.

Ég sætti mig ekki við að fagstéttin mín sé ein þeirra örfáu stétta sem virðast eiga að bera fulla ábyrgð á stöðugleika í landinu. Ég læt ekki segja mér það að fagstéttin mín sé of mikilvæg til að leggja niður störf – en hvorki nógu mikilvæg til að halda í starfi eða sýna virðingu.

Ég tek ekki þátt í þessu.




Skoðun

Sjá meira


×