Innlent

Velta bílaleiga og hótela vex hraðast

Ingvar Haraldsson skrifar
Velta hjá bílaleigum hefur aukist mikið síðustu árin.
Velta hjá bílaleigum hefur aukist mikið síðustu árin. Vísir/GVA
Virðisaukaskattskyld velta bílaleiga jókst um 165 prósent milli áranna 2010 og 2014 og velta í gistirekstri jókst um 119 prósent á sama tímabili. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir vöxtinn í þessum greinum hafa verið í samræmi við fjölda ferðamanna sem hafi verið tvöfalt fleiri í fyrra en árið 2010.

Það komi hins vegar á óvart hve hægst hafi á vexti veltu farþegaflugs milli landa. „Það sem slær mann strax er að vöxtur flugþáttarins síðustu ár er ekki í takt við fjölgun ferðamanna,“ segir Helga.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur veltan í farþegaflutningum í flugi aukist um þriðjung frá árinu 2010 en aðeins um tvö prósent á síðasta ári og sjö prósent árið 2013. „Skýringin á þessu er væntanlega m.a. að mikil fjölgun hefur verið yfir vetrartímann þegar flugverð hafa verið almennt lægri en eins hafa fleiri erlend flugfélög verið að sækja hingað heim,“ segir hún.

Helga Árnadóttir
Vöxturinn í veltu veitingageirans hefur verið hægari en fjölgun ferðamanna, eða 52 prósent frá árinu 2010. „Þar er auðvitað stór hluti viðskiptavina Íslendingar,“ segir Helga og því sé veltan ekki endilega samanburðarhæf við fjölgun ferðamanna.

Velta ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og farþegaflutninga er ekki í úttektinni þar sem þeir aðilar eru undanskildir virðisaukaskatti. Út frá tölum um fjölgun starfa má þó áætla að mikill vöxtur sé í skipulagningu ferða en 1.800 manns störfuðu í þeim geira í maí síðastliðnum miðað við 900 í maí árið 2011.

Störfum í ferðaþjónustu hefur fjölgað hratt síðustu ár. Í maí á þessu ári voru 18.500 starfandi í ferðaþjónustu samanborið við 16.900 árinu áður. Því fjölgar störfum um 1.600 milli ára sem er í samræmi við fjölgun starfa síðustu ár.

„Það er ekkert smáræði og þetta styður það sem við höfum verið að tala um, að fjölgun starfa frá hruni hafi fyrst og fremst verið í ferðaþjónustunni,“ segir Helga. Í nýlegri skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustu er áætlað að 45 prósent nýrra starfa frá árinu 2010 hafi orðið til í ferðaþjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×