Innlent

Bunkarnir lækka hægt hjá sýslumanni

Ingvar Haraldsson skrifar
 Þuríður Árnadóttir, staðgengill sýslumanns, skoðar hluta skjalabunkans sem bíður afgreiðslu hjá embættinu.
Þuríður Árnadóttir, staðgengill sýslumanns, skoðar hluta skjalabunkans sem bíður afgreiðslu hjá embættinu. Fréttablaðið/Vilhelm
Hægt hefur gengið að vinna að fækkun mála sem söfnuðust upp í verkfalli BHM og bíða þinglýsingar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Tæplega ellefu þúsund skjöl voru óafgreidd þegar lögfræðingar hjá sýslumanni komu aftur til starfa á mánudaginn í síðustu viku. Síðan þá hafa bæst við um tvö þúsund ný skjöl.

Þuríður Árnadóttir, staðgengill sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, býst við að málunum hafi lítið fækkað þótt embættið hafi ekki enn nákvæmar tölur yfir hve mörg mál hafi verið afgreidd. „Það er ekki farið að vinna það niður að ráði enn þá,“ segir Þuríður.

Embættið hefur þegar ráðið sex lögfræðinga og fleiri gætu bæst við á næstu dögum. Hvernig gangi að vinna á halanum sem myndast hafi í verkfallinu velti á því hvernig gangi að þjálfa nýtt starfsfólk.

Þá séu lögfræðingar sem hafi verið í verkfalli margir á leið í sumarfrí. Þuríður segir að það gætu liðið margir mánuðir þar til eðlilegt ástand skapast á ný.

Þuríður bendir á að vinna við fullnustugerðir á borð við nauðungarsölur hafi ekki enn lent af fullum þunga á embættinu.

„Í fullnustugerðunum kemur þunginn ekki fyrr en nokkrum vikum eftir að hægt er að hefjast handa við að vinna, því það eru það langir boðunarfrestir og lögboðnir auglýsinga- og tilkynningafrestir,“ segir Þuríður en fyrstu nauðungarsölurnar fara fram á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×