Innlent

Makríllinn gæti beðið haustsins

Sveinn Arnarsson skrifar
Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar.
Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar.
Svo gæti farið að makrílfrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra bíði haustsins. Að mati stjórnarandstöðunnar er ekki jafn mikil tímapressa að klára málið og meirihlutinn hefur haldið fram.

Ástæðan er að fyrirtöku dómsmáls gegn íslenska ríkinu vegna kvótasetningar makríls hefur verið frestað til haustsins. Talið var mikilvægt að klára lagasetningu um makrílveiðar í stað þess að aðeins reglugerðir giltu um veiðarnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson segir málið nú í höndum atvinnuveganefndar og gengið hafi verið að flest öllum kröfum stjórnarandstöðunnar. „Eins og frumvarpið lítur út núna gilda lögin aðeins í eitt ár. Ég vil því meina að gengið hafi verið að kröfum stjórnarandstöðunnar. Það er þá flötur fyrir samstarfi við að ljúka þingi,“ segir hann.

Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, telur þinglok geta orðið í lok næstu viku.

„Lögin gilda í eitt ár miðað við hvernig málið liggur núna, en auðvitað er álitaefni hvort nauðsynlegt sé að klára þetta nú á sumardögum eða draga þetta fram í september. Það er auðvitað ekkert klárt um þinglok fyrr en makríllinn er frá, allt annað er klárt,“ segir Róbert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×