Innlent

Afburðanemar verðlaunaðir með styrk

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Gunnlaugur Helgi Stefánsson og Kristín Björg Bergþórsdóttir hlutu styrkinn.
Gunnlaugur Helgi Stefánsson og Kristín Björg Bergþórsdóttir hlutu styrkinn. vísir/valli
„Ég er mjög sáttur og ég stefni á nám í eðlisfræði með áherslu á stjarnvísindi í haust,“ segir Gunnlaugur Helgi Stefánsson, en hann er einn af þeim tuttugu og sjö afburðanemendum sem hljóta styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands.

Gunnlaugur útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík í vor, ári á undan jafnöldrum sínum.

Styrkurinn er veittur nemendum sem hafa innritað sig í skólann í haust og var veittur við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi í gær. Nemendurnir koma úr þrettán framhaldsskólum víða á landinu og eiga það allir sameiginlegt að hafa náð eftirtektarverðum árangri á stúdentsprófi. Auk þess er litið til annarra þátta, eins og virkni í félagsstörfum og árangurs á öðrum sviðum.

Þetta er í áttunda sinn sem styrkir eru veittir og nemur hver styrkur 300 þúsund krónum.

Kristín Björg Bergþórsdóttir er ein af þeim sem hlaut styrkinn. Hún er dúx frá Menntaskólanum í Reykjavík og hlaut meðal annars verðlaun í eðlisfræði, stærðfræði, efnafræði og tölvunarfræði.

Kristín og Gunnlaugur eru bæði í landsliði Íslands í eðlisfræði og taka þátt í Ólympíuleikunum í eðlisfræði sem verða haldnir á Indlandi júlí. „Ég er mjög spennt að fara á Ólympíuleikana og við æfum mikið,“ segir Kristín sem stefnir á nám í stærðfræði í haust. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×