Innlent

Metfjöldi sækir um í Lögregluskólann

Snærós Sindradóttir skrifar
Sigríður Hrefna Jónsdóttir er formaður valnefndar Lögregluskólans
Sigríður Hrefna Jónsdóttir er formaður valnefndar Lögregluskólans vísir/gva
Aldrei hafa fleiri sótt um inngöngu í Lögregluskóla ríkisins, eða 158 manns. Umsóknarfrestur rann út á mánudag.

„Konur hafa eflst svo á undanförnum árum. Þær eru fyrir löngu búnar að átta sig á því að þær eru jafnokar strákanna. Þeim þykir þetta starf jafn spennandi og strákunum,“ segir Sigríður Hrefna Jónsdóttir, formaður valnefndar Lögregluskólans.

Sprenging varð í aðsókn kvenna í Lögregluskólann árið 2013, síðast þegar tekið var inn í skólann. Aðsókn kvenna, um fjörutíu prósent umsókna, hefur haldist síðan þá. „Ég rek það til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur [þáverandi innanríkisráðherra] og hvernig hún talaði um fjölgun kvenna innan lögreglunnar.“

Sigríður Hrefna segir að þegar nýjum nemendum sé veitt innganga í skólann hafi farið fram flókið mat á einstaklingunum.

„Við reynum að hafa kvarðana hlutlæga og málefnalega. Við stingum ekki bara hendi út og finnum hvernig veðrið er. Þetta snýst um að vanda sig,“ segir Sigríður.

„Það er í mínum huga deginum ljósara að það þarf allt að fara saman. Það þarf að hafa það þrek sem þarf líkamlega og að búa yfir þroska til að eiga samskipti við fólk, og þjónustulund.“

Ferilskrá umsækjenda er rækilega skoðuð og gengið úr skugga um að þeir eigi ekki við vímuefnavanda að stríða. „Í langflestum tilfellum þá segir það sig sjálft að umsækjandi sem hefur ekki verið á vinnumarkaði býr væntanlega yfir minni þroska en sá sem hefur verið lengi á vinnumarkaði, þó það sé ekki algilt,“ segir Sigríður.

Sálfræðingur er hluti af valnefndinni og umsækjendur mega búast við því að undirgangast sálfræðimat og streitupróf.

Aðspurð hvort kynið, karlar eða konur, komi betur út úr mati nefndarinnar á andlegum þáttum segir Sigríður: „Þegar það var útskrifað síðast úr skólanum þá var niðurstaðan sú að það voru sjötíu prósent konur á móti þrjátíu prósentum karla. Það var ekki á grundvelli þess að það væri handvalið heldur var það á grundvelli niðurstöðu ferlisins.“

Hún segir að ekki sé horft sérstaklega til kyns þegar tekið er inn í skólann. „Þeir hæfustu fara í gegn. Þar sem er vafaatriði þar hugsum við um konuna, ef þetta eru jafn hæfir einstaklingar.“

Búist er við því að umsóknarferlinu ljúki um miðjan júlí. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×