Skoðun

Staða kvennastétta á Íslandi 2015

Gyða Hrönn Einarsdóttir skrifar
Ég man enn tilfinningarnar sem vöknuðu þegar ég sem óharðnaður unglingur las um það í kennslubók í Íslandssögu að konur yfir 40 ára hefðu fengið kosningarétt þann 19. júní 1915 eftir langa og stranga baráttu frá 1885. Ég man bæði eftir undrun yfir því að konur hefðu ekki haft kosningarétt og eins stolti yfir því að Ísland væri eins framarlega í jafnréttismálum og ég þóttist af þessu lesa. Konur í Sviss fengu til dæmis ekki kosningarétt fyrr en 1971 og svo vorum við líka fyrst landa til að kjósa konu sem forseta í lýðræðisríki árið 1980.

Allt þetta taldi ég merki um að konur stæðu jafnfætis körlum í íslensku þjóðfélagi, en er það svo? Í reynd er kynbundinn launamunur staðreynd á Íslandi. Óútskýrður launamunur kynjanna er 7-18% á Íslandi samkvæmt vefsíðu Jafnréttisstofu. Nú síðastliðinn laugardag voru samþykkt lög sem binda enda á verkfallsaðgerðir stórra kvennastétta í heilbrigðiskerfinu, geislafræðinga, lífeindafræðinga, ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga. Það sem meira er að í lögunum eru forsenduákvæði um gerðardóm svo skýr að komið er í veg fyrir að kvennastéttir þessar geti fengið sams konar kjarabætur og samstarfsmenn þeirra læknar fengu við gerð sinna kjarasamninga í upphafi árs 2015.

Erum við í reynd að sjá hér birtingarmynd feðraveldisins? Er ásættanlegt að störf kvennastétta séu markvisst metin verðminni en störf karla? Er eðlilegt í nútímaþjóðfélagi að kvennastéttir séu sviptar lögbundnum réttindum sínum til að berjast fyrir betri launakjörum? Er eðlilegt að kvennastéttum sem starfa hjá hinu opinbera sé boðin langtum minni launahækkun en aðrir opinberir starfsmenn hafa fengið? Og er eðlilegt að þegar þessar kvennastéttir eru ekki tilbúnar að lúta í gras og sætta sig við að störf þeirra séu verðfelld þá sé slíkri samþykkt þvingað upp á þær með lögum?

Ég velti því fyrir mér hvernig unglingum framtíðarinnar muni líða þegar þeir lesa um það í kennslubókum að rétt fyrir aldarafmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi hafi kvennastéttir í kjarabaráttu verið sviptar vopnum sínum. Munu þau upplifa undrun? Stolt? Ég veit að tilfinningin sem ég finn fyrir er af allt öðrum toga.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×