Skoðun

Eplin í andlitshæð

Bryndís Haraldsdóttir skrifar

Það er ekki öllum gefið að fara vel með annarra manna fé. Nú stendur ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur, að eigin sögn, í ströngu og leitar leiða til frekara aðhalds í ríkisrekstrinum.

Verðbólgan er enn langt frá markmiði og vaxtalækkunarferli Seðlabankans er lokið í bili. Vonir ráðherra um að tíðindalítil fjármálaáætlun kæmi til með að ríða baggamuninn í þeim efnum eru brostnar og nú talað um aðhald komi með fjárlögum í haust. Þótt umrætt haust sé raunar á dagskrá Alþingis eftir rúma vikur hefur enginn á stjórnarheimilinu verið til í að viðra hugmyndir um hvar tækifæri til aðhalds og hagræðingar sé að finna. Kannski vegna þess að ekki er samstaða um nauðsynlegar aðgerðir innan ríkisstjórnarinnar. Kannski.

Nokkuð hefur verið fjallað um póstþjónustu og lagaskyldu Íslandspóst til að sinna pakkasendingum milli landa í kjölfar þess að fyrirtækið stöðvaði slíkar sendingar á dögunum. Deilt hefur verið um hvort skyldan sé yfirhöfuð til staðar og ef svo er, hvort ríkisfyrirtækið uppfylli þær skyldur. Byggðastofnun, sem fer með eftirlit á póstmarkaði, hefur hins vegar staðfest að fyrirtækinu ber að sinna þjónustunni.

Ekki nóg með það að fyrirtækið sinni ekki lagalegu skyldu sinni er eignarhald ríkisins á fyrirtæki í samkeppnisrekstri sem þessum tímaskekkja. Eitt sinn kunna að hafa verið rök með því að ríkið sinnti póstþjónustu hér á landi. Það er aftur á móti ljóst að samhliða fjölgun fyrirtækja á þeim markaði og tækniþróun eiga þau rök ekki lengur við.

Ríkisstjórn sem leitar leiða til hagræðingar í rekstri hlýtur að horfa til þess, sem eðlilegt er, að selja Íslandspóst og tryggja alþjónustu með útboði.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. 




Skoðun

Sjá meira


×